Skynvilla á suðurskautinu

Fyrir skömmu leiddi Íslendingurinn Fiann Paul fyrsta róðurinn frá syðsta hluta S-Ameríku um Drake-sundið að suðurskautinu. Róið var á 90 mínútna vöktum samfleytt í tólf daga. Aðstæðurnar og svefnleysið hafa sterk áhrif á skilningarvitin og á köflum byrjaði raunveruleikinn að renna saman við drauma Fianns.

Í myndskeiðinu segir hann frá þessum sögulega róðri og þar má sjá mikið af myndefni sem tekið var upp í leiðangrinum.

Fiann hefur búið hér á landi í rúman áratug og á þeim tíma hefur hann lokið við svo­kallaða als­lemmu út­hafsæv­in­týra (e. Ocean Explorers Grand Slam), í því felst að hafa róið yfir Atlants­haf, Ind­lands­haf, Kyrra­haf, Norður-Íshaf og Suður-Íshaf. Þetta gerði hann fyrstur manna og er metið skráð hjá heimsmetabók Guinness. Nú eru 33 afrek hans í bókinni hjá Guinness, sem er það mesta sem nokkur einstaklingur hefur fengið skráð í keppnisíþróttum.

Þá hefur Fiann tekið fram úr Reinhold Messner í metbókunum með því að fá skráð sitt fjórtanda afrek, sem enginn hefur gert áður (e. World's first) hjá Guinness. 

Alls voru sex ræðarar í hópnum en Fiann var skipstjórinn um borð. Lagt var af stað frá Horn­höfða, syðsta punkti S-Am­er­íku, klukk­an 12 hinn 13. des­em­ber síðastliðinn og komið til Suður­skauts­lands­ins klukk­an 13.45 á jóla­dag. Auk Fianns voru þeir Colin O'Brady, Cameron Bellamy, Andrew Towne, Jamie Douglas-Hamilto og John Petersen í leiðangrinum.

Fiann er í doktorsnámi í sálfræði við Carl Jung Institu­te í Sviss þar sem hann hefur kannað hvað fær fólk til að fara að líkamlegum þolmörkum sínum í ofurþolraun­um og þetta ræddi hann við mbl.is fyrir skömmu.

Hópurinn við komuna á Suðurskautið á jóladag.
Hópurinn við komuna á Suðurskautið á jóladag. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina