Éljagangur og leiðindaveður víða

Icelandair hefur aflýst 24 brottförum til og frá Evrópu á …
Icelandair hefur aflýst 24 brottförum til og frá Evrópu á morgun vegna slæmrar veðurspár. Ljósmynd/Lögreglan

„Þetta er keimlíkt því sem var á mánudag,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is. Gul viðvör­un verður í gildi á Suðvesturlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra frá því seint í kvöld fram á fimmtudagskvöld.

Icelandair hefur ákveðið að aflýsa alls 24 brottförum til og frá Evrópu á morgun vegna slæmrar veðurspár. Auk þess verður brottförum á flugi frá Bandaríkjunum til Íslands í kvöld seinkað.

Daníel bendir á að almennt séð séu landgöngubrýr við Flugstöðina í Keflavík ekki notaðar þegar vindhraði fer yfir 50 hnúta, um 25 metra á sekúndu.

„Það er útlit fyrir að vindhraði fari yfir það í nótt,“ segir Daníel.

Verst verður veðrið á fjallvegum á Vestfjörðum og heiðum á Norðurlandi. Daníel bendir á að það verði éljagangur á öllu vestanverðu landinu á morgun en nánast verður hægt að draga línu sem sýnir éljaganginn:

„Línan verður dregin frá Tröllaskaga í norðri að Mýrdalsjökli í suðri. Það verður éljagangur vestan megin við þessa ímynduðu línu,“ segir Daníel. 

Það dregur úr éljagangi og vind tekur að lægja annað kvöld þangað til veðrið gengur endanlega yfir aðfaranótt föstudags. 

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is