Sóttvarnarlæknir hvetur ekki til ferðabanns til Kína

Fólk á ferðinni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Fólk á ferðinni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnarlæknir telur ekki ástæðu til að hvetja til ferðabanns til Kína vegna hinnar nýju kórónaveiru. Ekki er heldur ástæða til að skima farþega á flugvöllum hér á landi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu landlæknis.

Leiðbeiningar verða uppfærðar

Opinber viðbrögð á Íslandi munu miðast við alvarleika hinnar nýju veiru í ljósi nýrra áreiðanlegra upplýsinga og er undirbúningur samkvæmt viðbragðsáætlunum sóttvarnarlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Í því felst að leiðbeiningar og áætlanir frá SARS-faraldrinum 2002 verða uppfærðar og viðbragðsaðilar upplýstir. Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna verða uppfærðar og gefnar út og einnig verða gefnar út leiðbeiningar til almennings um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um sýkingu af völdum hinnar nýju veiru.

Sömuleiðis verða leiðbeiningar gefnar til ferðamanna um viðbrögð heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og hvernig ferðamenn geti nálgast heilbrigðiskerfið hér á landi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Mynd/mbl.is

Enginn hefur greinst í Evrópu

Fram kemur í tilkynningunni að sóttvarnarlæknir fylgist náið með upplýsingum um sjúkdóminn af völdum kórónaveirunnar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Sóttvarnarstofnun ESB.

Margt er enn óljóst varðandi sjúkdóminn. Rannsóknir standa yfir í Kína hvort veiruna megi finna á öðrum stöðum en í borginni Wuhan en þar er hún talin eiga upptök sín á matarmarkaði. Allir þeir sem hafa greinst með veiruna hafa komið frá borginni. Hafa þeir ýmist ferðast til annarra staða í Kína eða annarra landa.

Smit á milli einstaklinga hefur verið staðfest en það virðist enn sem komið er ekki vera algengt.

Enginn einstaklingur hefur enn sem komið er greinst í Evrópu en veiran hefur greinst í Bandaríkjunum hjá einstaklingi sem kom frá Wuhan-borg.

Alls hafa sautján látist af völdum veirunnar, auk þess sem sýkingin hefur verið staðfest hjá um 600 einstaklingum. Fjöldi sýktra er líklega mun meiri.

Karlmenn með sóttvarnargrímur í lest í Hong Kong.
Karlmenn með sóttvarnargrímur í lest í Hong Kong. AFP

Frekari deifing innan landa Evrópu ólíkleg

Líklegt er að veiran geti borist til Evrópu, sérstaklega til landa/svæða sem eru með beinar flugsamgöngur til Wuhan-borgar í Kína. Frekari dreifing innan landa Evrópu er ólíkleg, sérstaklega ef einstaklingar greinast fljótt og viðeigandi einangrun er beitt.

Veiran virðist ekki valda jafn skæðum sjúkdómi og SARS-veiran gerði 2002 en þá létust um 10% af þeim sem sýktust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert