Leikskólagjöld hækkuð þvert á tilmæli Sambandsins

Þrátt fyrir að á Seltjarnanesi hafi leikskólagjöld hækkað mest á …
Þrátt fyrir að á Seltjarnanesi hafi leikskólagjöld hækkað mest á milli ára og þau verið hækkuð þvert á tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga, er næstódýrast að senda börn sín í leikskóla á Seltjarnarnesi, samkvæmt nýrri úttekt ASÍ. mbl.is/Golli

Leikskólagjöld í Seltjarnarnesbæ hækkuðu um 6,9% í ágúst, þrátt fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi lýst því yfir eftir undirritun lífskjarasamninganna í byrjun apríl að mælst væru til þess að sveitarfélög landsins hækkuðu ekki gjaldskrár sínar umfram það sem þegar væri komið til framkvæmda.

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri segir að það sé sín upplifun að …
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri segir að það sé sín upplifun að lífskjarasamningarnir haldi því miður ekki.

Seltjarnarnesbær fór þannig á svig við tilmæli sambandsins. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri segir í samtali við mbl.is, spurð út í þetta, að kominn hafi verið tími á hækkun, leikskólagjöld á Seltjarnarnesi hafi ekki hækkað í fjögur ár þar til í ágúst og nauðsynlegt hafi verið að uppfæra gjaldskrána í takt við hækkandi rekstrarkostnað.

Hún segir Samband íslenskra sveitarfélaga ekki hafa gert neinar athugasemdir við hækkanir sveitarfélagsins, sem voru þær mestu hjá nokkru sveitarfélagi milli ára samkvæmt úttekt verðlagseftirlits ASÍ.

Gjöldin næstlægst á Seltjarnarnesi

Eftir hækkunina eru leikskólagjöld á Seltjarnarnesi enn sem áður lægri en víðast hvar annars staðar, raunar allsstaðar nema í Reykjavík, sé miðað við 8 tíma dagdvöl barns með fæði, samkvæmt nýlegri úttekt verðlagseftirlits ASÍ á leikskólagjöldum stærstu sveitarfélaga landsins.

Samanburður á leikskólagjöldum stærstu sveitarfélaga landsins. Seltjarnarnes hækkar mest á …
Samanburður á leikskólagjöldum stærstu sveitarfélaga landsins. Seltjarnarnes hækkar mest á milli ára en er þó enn með næstlægstu gjöldin. Tafla/Alþýðusamband Íslands

„Það var bara mat okkar að þar sem þetta hefði ekki hækkað undanfarin ár og bæði launakostnaður og aðföng væru búin að vera að hækka, þá yrðum við að vinna það upp,“ segir Ásgerður.

Lífskjarasamningarnir „því miður“ ekki að halda

Ásgerður segir allt vera að hækka í íslensku samfélagi, þrátt fyrir að lífskjarasamningunum sem undirritaðir voru í byrjun apríl hafi verið ætlað var að stuðla að verðstöðugleika. Segir bæjarstjórinn að það sé sín upplifun sem framkvæmdastjóra sveitarfélags að samningarnir haldi ekki.

„Við finnum það bara á aðföngum og keyptu efni og þjónustu að það hefur allt hækkað, bankarnir hafa verið að hækka vexti, og svo framvegis. Þannig að þessir samningar, því miður, virðast ekki vera að halda,“ segir Ásgerður.

Hún segir leikskólamálin á Seltjarnarnesi annars vera í góðum farvegi, hátt hlutfall menntaðra leikskólakennara sé þar í starfi og vel hafi gengið að manna leikskólana. Ekki hafi þurft að senda börn heim og loka deildum vegna veikinda starfsfólks undanfarin tíu ár.

Kjarasamningar leikskólastarfsmanna og fleiri starfsmanna sveitarfélaga eru nú lausir og segir Ásgerður að hún vonist til þess að samið verði sem fyrst. „Það skiptir máli að þetta dragist ekki á langinn, fyrir alla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert