Sölvi Björn, Bergrún Íris og Jón Viðar verðlaunuð

Guðni Th. Jóhannesson, Eliza Reid forsetafrú og Heiðar Ingi Svans­son, …
Guðni Th. Jóhannesson, Eliza Reid forsetafrú og Heiðar Ingi Svans­son, formaður Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­anda (FÍBÚT), ásamt verðlaunahöfum kvöldsins, frá vinstri: Sölvi Björn Sigurðsson, Bergrún Íris Sævarsdóttir og Steingrímur Steinþórsson útgefandi sem hljóp í skarðið fyrir Jón Viðar Jónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sölvi Björn Sigurðsson, Bergrún Íris Sævarsdóttir og Jón Viðar Jónsson hlutu fyrr í kvöld Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019 er þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 31. sinn úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. 

Sölvi Björn hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Selta – Apókrýfa úr ævi landlæknis sem Sögur útgáfa gefur út, Bergrún Íris í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Langelstur að eilífu sem Bókabeitan gefur út og Jón Viðar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965 sem Skrudda ehf. gefur út. 

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru 1. desember, en fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson, Knútur Hafsteinsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Verðlaunaféð nemur einni milljón króna fyrir hvert vinningsverk. 

Óður til náttúrunnar

„Ég fann fyrst og fremst fyrir gleði þegar niðurstaðan varð ljós,“ segir Sölvi Björn Sigurðsson og tekur fram að það hefði ekki komið sér á óvart ef einhver annar höfundur í hópi tilnefndra hefði unnið, enda hafi samkeppnin verið hörð. „Það eitt að fá tilnefningu er í mínum huga ákveðin staðfesting á því að maður sé að gera eitthvað rétt.“

Í umsögn dómnefndar um Seltu – Apókrýfu úr ævi landlæknis segir: „Frumleg og áhrifarík saga sem fer víða með lesandann í tíma og rúmi, yfir vötn og lönd en ekki síður innansálar. Hið ytra er frásögnin sett niður fyrir tveimur öldum en jafnframt rambar hún á barmi raunveru og hugarflugs. Sögunni er valið málsnið sem hæfir bæði sögutíma og frásagnaraðferð og sýnir höfundur þar fágæta stílsnilld.“

Í þakkarræðu sinni rifjaði Sölvi Björn upp að hann hefði aðeins verið átta ára gamall þegar hann skrifaði sína fyrstu skáldsögu, sem nefndist Lífið á Hornbjargsvita og var óður til náttúrunnar og ekki síst dýranna á staðnum þegar hann dvaldi þar sumarlangt. Sagðist hann sjá Seltu sem eins konar framhald þessarar fyrstu skáldsögu. „Hún fjallar um Ísland, um fuglana og steintegundirnar, um fólkið sem við elskum, missum og finnum kannski aftur – og kannski ekki – en fyrst og fremst um það að við hættum ekki að leita að því sem okkur er ætlað að leita að, þar til við annaðhvort finnum það eða deyjum.“

Tungumálið leir sem hægt er að móta

Selta er önnur bók Sölva Björns þar sem sögusviðið er 19. öld, en fyrri bókin er Gestakomur í Sauðlauksdal sem hann sendi frá sér 2011. Spurður hvað það sé við 19. öldina sem kalli á hann svarar Sölvi Björn: „Þetta eru ákveðin tímamót í íslenskri sögu og mannkynssögunni almennt, þar sem nútíminn er að vakna. Það var ákveðið bil á milli þeirra Íslendinga sem höfðu færi á að fara út í heim og mennta sig og taka á móti öllum þessum nýju hugmyndum og þeirra sem lifðu í gamla tímanum í sveitinni og lítið breyttist hjá frá fyrri öldum. Þessi núningur þarna á milli skapar skemmtilegt rými til að stilla hugmyndum, aðstæðum og andstæðum saman. Svo er einhver andi í tungumálinu. Það er hægt að leika sér með tungumálið á annan hátt en í samtímasögu. Tungumálið er ekki dautt efni heldur leir sem hægt er að móta með hvaða hætti sem er.“

Þetta var mitt Everest

„Ég er gríðarlega þakklát,“ segir Bergrún Íris Sævarsdóttir og tekur fram að hún hafi verið innilega hissa þegar í ljós kom að hún hefði unnið. „Enda er þetta í fyrsta sinn sem ég er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ég átti því ekki von á þessum verðlaunum fyrr en mögulega seinna á ferlinum. Þetta var mitt Everest sem ég hafði sett stefnuna á. Nú verð ég að finna mér nýtt Everest til að stefna að,“ segir Bergrún Íris og nefnir í því samhengi að nýtt markmið gæti meðal annars falist í því að efla áhuga fólks á öllum aldri fyrir barnabókum. 

Í þakkarræðu sinni minnti Bergrún Íris á mikilvægi barnabóka og kvöldsögunnar. „Barnabók er griðastaður. Hún veitir skjól, huggar, faðmar, kennir og þroskar. Það er ekki þar með sagt að barnabækurnar þurfi að vera bitlausar eða viðfangsefnið léttvægt. Þvert á móti,“ sagði Bergrún Íris og benti á að Langelstur að eilífu fjallaði um barn sem missti besta vin sinn. „En þó að bókin kalli fram erfiðar tilfinningar skilur hún lesendur eftir sátta, með frið í hjartanu, og að lestri loknum eru börnin enn nánari foreldrum sínum en áður. Það er ekkert að óttast. Með bók í hendi erum við örugg, jafnvel þótt sögurnar segi frá sorg og missi, skelfilegum skrímslum eða ógnvekjandi vampírum,“ sagði Bergrún Íris og minnti á að barn sem lærði ekki að elska bækur færi á mis við ævintýri og spennu, öryggi og skjól.

Í umsögn dómnefndar um Langelstur að eilífu segir: „Í bókinni Langelstur að eilífu er fjallað á hispurslausan hátt um elli, dauða og sorg. Þessu viðkvæma efni eru gerð afar falleg skil í bæði texta og myndum sem miðla sögunni í sameiningu. Þetta er áhrifarík en jafnframt hnyttin og skemmtileg bók um þarft umfjöllunarefni fyrir börn.“

Óskandi væri að myndhöfundar gætu fengið starfslaun listamanna

Bergrún Íris hefur hingað til myndlýst allar sínar bækur. „Yfirleitt fæ ég hugmyndir sem myndir og ég byrja alltaf að leita að persónum bókanna í teikningu áður en ég byrja að skrifa. Mér finnst ég ekki vita hvernig persónan á að hljóma fyrr en ég veit hvernig hún lítur út. Það væri skemmtileg áskorun fyrir mig að vinna með öðrum myndhöfundi og skrifa eitthvað án þess að teikna það. Við eigum svo ótrúlega mikið af flottum og færum myndhöfundum hérlendis og því er óskalistinn minn eftir samstarfsfélögum langur,“ segir Bergrún Íris og tekur fram að óskandi væri að myndhöfundar gætu fengið starfslaun listamanna líkt og aðrar stéttir.

Starfið í mikilli óvissu

„Ég vil byrja á því að þakka þann heiður sem mér og verki mínu er sýndur með þessari viðurkenningu,“ sagði Jón Viðar Jónsson í þakkarræðu sem Steingrímur Steinþórsson útgefandi flutti fyrir hans hönd á Bessastöðum. 

Í ræðunni benti Jón Viðar á að bókin væri fyrst og fremst afrakstur starfs hans við Leikminjasafn Íslands sem var stofnað 2003. „En illu heilli lagt niður í fyrra, jafnframt því sem safnkosturinn var færður undir Landsbókasafn og Þjóðminjasafn. Leikminjasafnið var í upphafi stofnað af grasrótarsamtökum leiklistar- og leikáhugafólks til að bæta úr þeirri vanrækslu sem leiksögulegur arfur þjóðarinnar hafði þá sætt af hálfu ríkis, sveitarfélaga og annarra opinberra stofnana um allt of langt skeið. Framtíð þessa starfs er því í mikilli óvissu sem stendur og hörmuleg sú tilhugsun að aftur verði horfið til fyrra ástands. Myndi því fátt gleðja höfund þessarar bókar meira en ef útkoma hennar og sú upphefð, sem henni hefur nú veist, myndi leiða til þess að merki Leikminjasafnsins yrði hafið á loft að nýju og starf þess endurreist í einhverri mynd.“

Í umsögn dómefndar um Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965 segir: „Hér eru helstu stjörnurnar í leiklistarsögu þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar dregnar lifandi og skýrum dráttum og list þeirra gerð ítarleg og góð skil. Þrátt fyrir að bókin byggist á köflum um einstaka leikara og leiksögu þeirra gefur hún jafnframt samfellda og skýra mynd af fyrstu árum reglulegrar leiklistarstarfsemi hér á landi, ekki aðeins á leiksviðinu sjálfu heldur einnig í útvarpi og á bak við tjöldin og er því mikilvægt framlag til leiklistarsögu okkar.“

Blaðamaður Morgunblaðsins sendi Jóni Viðari nokkrar spurningar og spurði meðal annars hvort viðurkenningin hefði komið honum á óvart. „Já og nei. Það voru margir verðugir kandidatar í þessum flokki að þessu sinni. Á hinn bóginn hafa öll viðbrögð þeirra, sem á annað borð hafa lesið bókina og látið í sér heyra, verið svo eindregið jákvæð að ég var farinn að trúa því að mér hefði tekist að skrifa allra sæmilegustu bók.“

Leikstjórar með uppblásin egó

Spurður hvort hann sjái einhverjar hliðstæður milli leiklistarstarfs þessa tíma og dagsins í dag svarar Jón Viðar: „Það hefur margt breyst, sumt til batnaðar, annað ekki. Leikstjórnarveldið í íslensku leikhúsi er að mínum dómi komið á nánast sjúklegt stig sem birtist meðal annars í því að það hirðir ekkert um að gefa bestu og hæfileikaríkustu leikurunum nægt svigrúm til þroska. 

Allir sem hafa eitthvað fylgst með skrifum mínum vita að þetta er skoðun mín sem ég hef leitast við að sýna fram á með margvíslegum dæmum. Kannski er það af þessum sökum sem við eigum engan Þorstein Ö. í dag, nú eða – svo við færum okkur til næstu kynslóðar á eftir – engan leikara sem að fjölhæfni jafnast á við til dæmis Róbert Arnfinnsson. Við eigum leikara sem á góðum degi geta gert frábæra hluti, en þeir góðu dagar eru sorglega sjaldgæfir og það er ekki leikurunum að kenna heldur misvitrum leikhússtjórum og leikstjórum með uppblásið egó.“

Nánar er rætt við alla þrjá verðlaunahafa í Morgunblaðinu á morgun, miðvikudag. 

mbl.is