Orsök bótúlisma enn ókunn

Dæmi eru um að bakterían sem veldur bótulisma eitrun hafi …
Dæmi eru um að bakterían sem veldur bótulisma eitrun hafi fundist í heimagerðum súrum blóðmör. Óljóst er þó hvað olli eitruninni sem kom upp hér á landi fyrr í mánuðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er enn vitað hvaða matvæli ollu því að karlmaður á Norðurlandi eystra greindist með bótúlismaeitrun um miðjan mánuðinn. Rannsókn á sýnum sem tekin voru úr matvælum á heimili mannsins leiddu í ljós að ekki væri hægt að rekja eitrunina til þeirra matvæla.

Uppruni eitrunarinnar er því enn óþekktur og ekki er fyrirhugað að rannsaka orsakir hennar frekar, samkvæmt því sem fram kemur á vef embættis landlæknis í dag. Fleiri hafa ekki greinst með eitrunina.

Maðurinn sem smitaðist er enn á spítala, eftir því sem mbl.is kemst næst, en eitrunin veldur tímabundinni lömun og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem fyrir henni verða. Þau svör fengust frá Landspítala í dag að óheimilt væri að veita upplýsingar um líðan mannsins.

Fram kemur á vef embættis landlæknis að fulltrúi sóttvarnalæknis hafi farið yfir neyslusögu mannsins með aðstandendum og að á grundvelli hennar hafi þrjú sýni af matvælum verið send til greiningar á rannsóknastofu erlendis. Niðurstöðurnar sýndu að matvælin sem send voru í rannsókn voru ekki orsök eitrunar af völdum Clostridium botulinum.

Bótúl­ismi er mjög sjald­gæf eitrun sem hafði aðeins greinst hér á landi þris­var áður en hún kom upp núna í janúar; fyrst árið 1949 þegar fjór­ir menn veikt­ust eft­ir neyslu súrsaðs dilkakjöts, aft­ur 1981 þegar fjög­urra manna fjöl­skylda veikt­ist og síðast árið 1983 þegar móðir og barn veikt­ust eft­ir að hafa borðað súrt slát­ur sem bakt­erí­an fannst í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert