Fékk leyfi til að áfrýja dóminum

Vigfús var ákærður eftir að tveir létust í bruna að …
Vigfús var ákærður eftir að tveir létust í bruna að Kirkjuvegi 18 á Selfossi í október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur veitt Vigfúsi Ólafssyni leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar frá 13. desember 2019. Þar var hann sakfelldur fyrir að valda eldsvoða í íbúðarhúsnæði. Karl og kona fórust í brunanum.

Vigfús var líka sakfelldur fyrir manndráp samkvæmt 211. grein almennra hegningarlaga. Refsing var ákveðin fangelsi í 14 ár og skyldi hann greiða börnum og foreldrum hinna látnu skaðabætur. Vigfús hafði verið sakfelldur í héraði fyrir brennu og manndráp af gáleysi samkvæmt 215. grein almennra hegningarlaga og gert að sæta fangelsi í fimm ár.

Í beiðni um áfrýjunarleyfi sagði m.a. að í fyrsta lagi væru engin fordæmi fyrir því að sakborningur væri sakfelldur fyrir brot gegn 211 gr. almennra hegningarlaga vegna háttsemi sem leiddi til dauða tveggja einstaklinga í einum og sama verknaði. Í öðru lagi þyrfti að skera úr um mörk ásetnings og gáleysis í málinu. Í þriðja lagi færi niðurstaða Landsréttar um ásetning leyfisbeiðanda til manndráps á skjön við réttarframkvæmd og skrif fræðimanna. Einnig byggði leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni til og uppfyllti ekki þær sönnunarkröfur sem hvíldu á ákæruvaldinu. Loks taldi leyfisbeiðandi mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar í málinu í ljósi ósamræmis milli niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar um heimfærslu til refsiákvæða sem hefði haft veruleg áhrif á ákvörðun refsingar í málinu.

Í ákvörðun Hæstaréttar segir m.a. að líta verði svo á að úrlausn um mörk ásetnings og gáleysis í máli af þessum toga myndi hafa verulega almenna þýðingu, auk þess sem mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um ákvörðun refsingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »