Fær ekki að skipta mynt fyrir 1,6 milljónir

Öll myntin er í formi hundrað króna enda segir Li …
Öll myntin er í formi hundrað króna enda segir Li að það borgi sig ekki að kaupa yfirvigt fyrir minni mynt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Wei Li, Kínverji sem er nú á Íslandi í þriðja sinn, fær ekki að skipta rúmlega 170 kílógrömmum af íslenskri mynt í handhægari stærðir. Andvirði myntarinnar er um 1,6 milljónir króna og hefur Li fjármagnað Íslandsferðir sínar í tvígang með þessum hætti en hann flutti myntina inn frá Kína.

Í þetta skiptið virðist það ekki ætla að ganga upp en Li fór með peningana í Seðlabanka Íslands þar sem honum var neitað um afgreiðslu, sömu sögu var að segja í Arion banka en þar var lögregla kölluð til vegna beiðnar Li. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Myntina fær Li frá myntbraskara í Kína. Hluti myntarinnar kemur frá endurvinnslufyrirtæki sem kaupir samanpressaða bíla frá Íslandi. Li hefur ferðast til annarra landa í sama tilgangi, meðal annars til Danmerkur, Þýskalands og Noregs. Að sögn Li er þar farið eftir lögum og reglum en hérlendis virðist Seðlabankinn ekki ætla að gera það. 

„Það er alveg skýrt samkvæmt upplýsingum á ensku sem eru á heimasíðu bankans að bankinn á að taka við allri mynt,“ segir Li í samtali við Fréttablaðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert