Ástandið „verra en á Þorláksmessu“

Brauðið var eftirsóknarvert og flestar hillur tæmdust síðdegis.
Brauðið var eftirsóknarvert og flestar hillur tæmdust síðdegis. Ljósmynd/Aðsend

„Það er brjálað að gera, það er bara staðan, en það verður lítið að gera á morgun,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss. 

Viðvörun vegna veðurs var uppfærð úr appelsínugulri í rauða fyrir höfuðborgarsvæðið síðdegis í dag og því segir Guðmundur að það hafi komið töluvert á óvart hversu mikið var að gera í verslunum Bónuss undir kvöld. „En við vorum búin að gera ráð fyrir að það yrði mikið að gera í dag,“ segir hann. 

Langar raðir mynduðust við afgreiðslukassa í verslunum Bónuss og fleiri …
Langar raðir mynduðust við afgreiðslukassa í verslunum Bónuss og fleiri verslana síðdegis. mbl.is/Elín

Viðvörunin tekur gildi klukkan sex í fyrramálið og gildir til klukkan 11. Fólk virðist hafa vilja hafa varann á en mbl.is hefur eftir nokkrum viðskiptavinum að hillur voru farnar að tæmast á sjötta tímanum. Einn viðskiptavinur þurfti að þræða nokkrar Bónusverslanir eftir brauði en endað í Krónunni þar sem brauð var fáanlegt. Þá hafði annar orð á því að ástandið væri „verra en á Þorláksmessu“. Guðmundur segir að allt hafi þó gengið áfallalaust fyrir sig og fólk hafi almennt sýnt þolinmæði. 

Brauð og fleiri nauðsynjavörur ruku úr hillunum.
Brauð og fleiri nauðsynjavörur ruku úr hillunum. mbl.is

Verslanir opna seinna á morgun

Óveðrið hefur áhrif á afgreiðslutíma Bónuss á morgun, en verslanirnar opna öllu jafna klukkan 10 á föstudögum. „Við ætlum ekkert að láta starfsfólk okkar mæta fyrr en veðrið er gengið niður og taka síðan bara stöðuna,“ segir Guðmundur. Hann telur líklegt að verslanirnar opni í fyrsta lagi um hádegi á morgun. 

„En við munum þurfa að vinna eitthvað fram eftir í kvöld og ganga frá og taka allt lauslegt inn,“ segir Guðmundur.

Rauða viðvörunin gildir aðeins í fjórar klukkustundir en fólk virðist …
Rauða viðvörunin gildir aðeins í fjórar klukkustundir en fólk virðist vilja hafa varann á. mbl.is/Elín
Nú fer hver að verða síðastur.
Nú fer hver að verða síðastur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is