Félagsdómur úrskurðar í vinnudeilu blaðamanna

Árvakur var sýknaður af öllum kröfum Blaðamannafélagsins, nema einni.
Árvakur var sýknaður af öllum kröfum Blaðamannafélagsins, nema einni. mbl.is/Hari

Félagsdómur hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli Blaðamannafélags Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins vegna Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, vegna fréttaskrifa á vef mbl.is meðan á verkfalli blaðamanna netmiðla stóð 8. nóvember. Blaðamannafélagið fór fram á að viðurkennt yrði fyrir dómi að fréttir níu starfsmanna og verktaka Árvakurs, sem rituðu fréttir á vef mbl.is, hefðu brotið gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Var Árvakur dæmdur brotlegur fyrir skrif eins starfsmanns, en sýknaður af kröfum vegna skrifa annarra starfsmanna.

Starfsmennirnir sem um ræðir eru ýmist félagsmenn Blaðamannafélagsins, annarra stéttafélaga eða verktakar. Niðurstaða dómsins var sú að verkfallsboðun teljist binda alla launþega í viðkomandi starfsgrein, hvort sem þeir tilheyra Blaðamannafélaginu eða ekki, enda vinni þeir á starfssviði kjarasamninga Blaðamannafélagsins. Hins vegar séu verktakar ekki bundnir af verkfallsboðun, þar sem kjör þeirra heyra ekki undir samningana.

Sömuleiðis var deilt um lögmæti frétta sem skrifaðar voru áður en verkfall hófst, en tímasettar til birtingar meðan á verkfallinu stóð. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að birting frétta sem voru að fullu unnar áður en verkfall hófst geti ekki falið í sér brot gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Kröfur Blaðamannafélagsins voru vegna níu starfsmanna og verktaka, auk þess sem krafist var sektar og greiðslu málskostnaðar. Vegna ofangreinds mats dómsins töldust, sem fyrr segir, skrif eins blaðamanns vera brotleg. Árvakur var sýknaður af öðrum kröfum Blaðamannafélagsins í málinu og var fyrirtækinu ekki gerð sekt, en af þeim sökum hefur fyrirtækið ekki kost á að áfrýja úrskurðinum. 

mbl.is