Áhrifin mest í leikskólum

Áhrifin verða mest í leikskólum borgarinnar þar sem börnum sem …
Áhrifin verða mest í leikskólum borgarinnar þar sem börnum sem fá vistun í leikskólum verður skipt upp í hópa. Þeim hópum verður svo skipt niður á daga vikunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allsherjarverkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hófst á miðnætti í nótt, en verkfallsaðgerðirnar eru ótímabundnar og munu hafa víðtæk áhrif á starfsemi borgarinnar. Engir fundir hafa verið boðaðir í deilunni á næstu dögum skv. vef ríkissáttasemjara.

„Velferðarsvið er búið að fá undanþágur fyrir þjónustu sem snýr að hjúkrunarheimilum og sambýlum en það er ákveðin starfsemi eins og þrif og fleira sem ekki eru undanþágur fyrir þannig að öll starfsemi verður þyngri meðan á verkfallinu stendur. Neyðarþjónustu verður þó sinnt,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.

Áhrifin verða mest í leikskólum borgarinnar þar sem börnum sem fá vistun í leikskólum verður skipt upp í hópa. Þeim hópum verður svo skipt niður á daga vikunnar.

Þrif munu falla niður

Matarþjónusta í einhverjum grunnskólum borgarinnar mun raskast og þurfa nemendur því að koma með nesti í skólann. Verkfallið mun einnig hafa áhrif á þrif einhverra grunnskóla sem gæti þurft að loka ef verkfallið dregst á langinn.

Verkfallið mun einnig hafa áhrif á þá sem njóta velferðarþjónustu þó svo að undanþágur hafi verið veittar fyrir neyðarþjónustu. „Það veldur meðal annars því að ekki verður vaskað upp á hjúkrunarheimilum og það þarf því að nota einnota diska og hnífapör í staðinn fyrir leirtauið. Það eru alls konar svona hlutir sem gera allt miklu erfiðara,“ útskýrir Bjarni.

Þá falla þrif á heimilum fatlaðs fólks og eldri borgara í heimahúsum niður sem og aðstoð við böðun. Þjónusta við borgarlandið mun skerðast meðan á verkfallinu stendur og ákveðnum störfum verður ekki sinnt. Ekki verður gert við malbik, sorphirða fellur niður og almennri hreinsun í borginni, þ.á m. í kringum grenndargáma, verður ekki sinnt.

„Við viljum ítreka það að fólk gangi vel um eins og t.d. í kringum grenndarstöðvarnar. Losun á þeim heldur áfram en það verður ekkert hreinsað í kringum þær. Við biðlum til fólks að skilja ekki eftir rusl við þær heldur fara þá frekar í SORPU,“ segir Bjarni að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert