Pörupiltar tilkynntir til barnaverndar

Nokkrir piltar urðu uppvísir að því að kasta flugeldi inn um bréfalúgu á íbúðarhúsnæði í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um síðustu helgi. Eldur kviknaði í mottu í anddyrinu en húsráðandi var snar í snúningum, braut mottuna saman yfir flugeldinn og kastaði henni út.
Lögreglumenn ræddu alvarlega við piltana og aðstandendur þeirra. Báðu piltarnir húsráðendur síðan afsökunar en tilkynning um athæfi þeirra var send til barnaverndar.

Nokkrar tilkynningar um slys hafa borist lögreglunni á Suðurnesjum á síðustu dögum. Kona sem gekk á töskukerru í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hrasaði og slasaðist á hné. Hún var flutt með sjúkrabifreið til læknis.

Önnur kona sem var að tína spegilbrot upp af gólfi skarst illa á hendi og var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Karlmaður sem hélt ásamt öðrum á þakplötu sem fokið hafði í óveðrinu fyrir helgi varð fyrir því óhappi að vindhviða feykti honum til svo hann datt og rotaðist. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á HSS til skoðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert