Ráðist á ungan mann

mbl.is/Ómar

Tveir strákar réðust á ungan mann í Kópavogi á níunda tímanum í gærkvöldi. Maðurinn fann til eymsla í andliti og var með kúlu á hnakka að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem réðust á hann voru farnir af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn.

Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar í gærkvöldi. Meðal annars var brotist inn í bifreið við Miðbakka og verðmætum stolið úr henni. Um svipað leyti var brotist inn í bifreið við Flugvallarveg en rúða var brotin í bifreiðinni og stolið úr henni verðmætum. Eins var brotist inn í skóla í Austurbænum, það er hverfi 105, í nótt. 

Um klukkan 21 í gærkvöldi var ökumaður stöðvaður í Austurbænum, hverfi 104, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig með fíkniefni á sér. Annar ökumaður var stöðvaður í hverfi 108 sem einnig er talinn hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. 

Á áttunda tímanum í gærkvöldi stöðvaði lögreglan för bifreiðar í miðbænum og klippti af skráningarnúmerin þar sem bifreiðin var ótryggð.

mbl.is