Verkfallsboðun eins og jarðskjálftar

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson vinnumarkaðssérfræðingur við HÍ.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson vinnumarkaðssérfræðingur við HÍ. mbl.is/Árni Sæberg

Hingað til hefur það verið regla frekar en undantekning að forsvarsmenn opinberra stéttarfélaga þurfi að sækja heimild til verkfallsaðgerða áður en eitthvað fer að hreyfast í samningsátt og því kemur niðurstaðan í atkvæðagreiðslu BSRB ekkert rosalega á óvart.

Þetta segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, vinnumarkaðssérfræðingur og dósent við Háskóla Íslands. Hann segir niðurstöðuna ekki endilega benda til þess að það stefni í hart verkfallsvor, heldur sé fólk fljótt að gleyma verkfallsboðunum og -aðgerðum fyrri ára.

Gylfi grípur til samlíkingar og bendir á að þegar það fari að skjálfa á einhverjum stað á landinu beinist athygli almennings og fjölmiðla að þeirri hrinu. Þegar jarðskjálftafræðingar séu hins vegar spurðir um viðburðina sé svarið oftast að þetta sé nú nokkuð algengt og hafi gerst áður fyrir ekki svo löngu síðan. Segir hann það sama gilda þegar komi til aðgerða á opinbera markaðinum. „Minnið okkar er bara ekki betra en þetta.“

Samþykkt var í dag hjá 15 aðildarfélögum BSRB að grípa til verkfallsaðgerða sem eiga að hefjast 9. mars náist ekki samningar í kjaraviðræðum félaganna við viðsemjendur sína, sveitarfélögin og ríkið, fyrir þann tíma. Hefjast aðgerðir í skrefum frá 9. mars, en sé enn ósamið 15. apríl, strax eftir páskafrí, munu tæplega 18.000 starfsmenn leggja alfarið og ótímabundið niður störf.

Til viðbótar við þetta hefur Efling átt í deilum við Reykjavíkurborg vegna um 1.800 starfsmanna borgarinnar sem nú eru í ótímabundnu verkfalli og er heildarfjöldinn því tæplega 20.000 ef allt er talið.

„Þá fyrst kemur líf í viðræðurnar“

Spurður hvort þarna sé um að ræða mikinn fjölda í sögulegu samhengi segir Gylfi að fyrst þurfi að líta til þess að hér á landi hafi á opinbera markaðinum verkfallsboðun í raun verið fyrsta raunverulega skrefið þegar komi að samningum. Þannig hafi jafnvel fyrri forystumenn opinberra stéttarfélaga látið hafa eftir sér að til þess að fá boltann til að rúlla þyrfti fyrst að fá verkfallsheimildina. „Þá fyrst kemur líf í viðræðurnar.“

15 félög innan BSRB samþykktu verkfallsaðgerðir í atkvæðagreiðslu.
15 félög innan BSRB samþykktu verkfallsaðgerðir í atkvæðagreiðslu. Ljósmynd/Aðsend

Hins vegar sé ekki lengra síðan en árin 2014-15 þegar Starfsgreinasambandið, ljósmæður, læknar, kennarar og fleiri hafi boðað til verkfalla. Hvorki stærð né niðurstaða um verkföll sé því eitthvað sem ekki hafi sést áður, þótt Gylfi taki fram að verkföll á almenna markaðinum hafi yfirleitt verið skammvinnari en þau á opinbera markaðinum ef komi til þeirra.

Margt sem þyrfti að laga þegar kemur að samningaviðræðum

Gylfi hefur áður gagnrýnt hvernig samningamál gangi fyrir sig hér á landi og hélt hann meðal annars fyrirlestur á Þjóðarspegli í haust. Þar lagði hann fram 11 atriði sem hann taldi að þyrfti að vinna að til að þurfa ekki að upplifa sömu söguna aftur og aftur þegar kæmi að íslenska vinnumarkaðinum. Þannig hefur hann meðal annars kallað eftir skýrari kröfugerðum og samningsmarkmiðum, samræma lagareglur á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins og skerpa á vinnulagi við viðræðuáætlun í aðdraganda kjarasamninga. 

Þá nefnir Gylfi einnig að ef tryggja eigi frið á öllum vinnumarkaðinum þurfi stéttarfélög á opinbera vinnumarkaðinum að vera þátttakandi í samráðsferli við stjórnvöld sem almenni vinnumarkaðurinn hafi verið stefnumótandi á undanfarna áratugi. Það eigi til dæmis við um lífskjarasamningana sem voru milli Samtaka atvinnulífsins og almenna markaðarins. Nú séu opinberu stéttarfélögin hins vegar að fara af stað, en þau voru ekki hluti af samkomulaginu á sínum tíma.

Skýrsla árið 2018 en lítið að frétta eftir það

Að lokum nefnir hann að fyrir nokkrum árum hafi verið tekin ákvörðun um að jafna kjör á milli vinnumarkaða. Skýrslu var skilað frá samráðshópi um að jafna laun á milli vinnumarkaða árið 2018 og átti í kjölfarið að fara af stað vinna við þetta mál. Lítið hafi hins vegar verið að frétta af því síðan.

mbl.is