Hollvinasamtök kæra framkvæmd

Halldór Páll Gíslason, formaður samtakanna.
Halldór Páll Gíslason, formaður samtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hollvinasamtök Elliðaárdals ætla að kæra framkvæmd Þjóðskrár Íslands á undirskriftasöfnun sem þau standa fyrir vegna fyrirhugaðra framkvæmda Reykjavíkurborgar við Stekkjarbakka Þ73.  

„Kæran byggist á því að ítrekað hefur komið í ljós að þýðið (þeir sem mega undirrita) sem liggur til grundvallar undirskriftasöfnuninni er vitlaust. Þetta kom fyrst í ljós 14. febrúar s.l. Póstnúmer á Kjalarnesi voru ekki inni,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Þjóðskrá greindi samtökunum frá því að þetta hefði verið lagað og póstnúmerið 162 á Kjalarnesi var sett inn. Fram kemur að stofnunin hafi hafnað því að veita samtökunum framlengdan frest út af þessu. Haft var samband við Reykjavíkurborg sem sagði að erindið heyrði ekki undir borgina og benti hún á Þjóðskrá.

Í tilkynningunni segir að komið hafi í ljós að þýðið sé enn vitlaust skráð, því samtökin hafi fengið ábendingu um það á föstudag að póstnúmerið 161 í dreifbýli Reykjavíkur sé ekki inni.

„Með vísan til þessa kæra Hollvinasamtök Elliðaárdals framkvæmd Þjóðskrár á undirskriftasöfnuninni til ráðuneytisins, skv. 6. gr. laga um Þjóðskrá Íslands nr. 70/2018 og gera kröfu um að þetta verði lagfært nú þegar. Jafnframt er þess krafist að Hollvinasamtökin fái framlengdan frest til að safna undirskriftum í jafnlangan tíma og þýðið er búið að vera vitlaust skráð,“ segir í tilkynningunni.

„Það er með ólíkindum að þessi opinberi aðili sem hefur þetta hlutverk skuli klikka á þessu,“ segir Halldór Frímannsson, stjórnarmaður í samtökunum, í samtali við mbl.is. 

Um 18.000 und­ir­skrift­ir þarf til að knýja fram um­rædda kosn­ingu og lýk­ur söfn­un­inni næsta föstu­dag. Yfir 9.000 undirskriftir hafa borist. 

Undirskriftalistann má finna hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert