Andlát: Helga Jóna Ásbjarnardóttir (Lilla Hegga)

Helga Jóna Ásbjarnardóttir
Helga Jóna Ásbjarnardóttir

Helga Jóna Ásbjarnardóttir lést á gjörgæsludeild Landspítalans þriðjudaginn 18. febrúar, 76 ára að aldri. Hún var fædd í Reykjavík 26. júlí 1943, dóttir hjónanna Jórunnar Jónsdóttur húsmóður og Ásbjörns Ólafssonar Jónssonar sem bjuggu á 3. hæð fjölbýlishússins að Hringbraut 45 í Reykjavík.

Á fjórðu hæð bjuggu hjónin Margrét Jónsdóttir og Þórbergur Þórðarson og var Helga Jóna sem lítið barn vinur og heimagangur hjá þessum nágrannahjónum. Fór svo að Þórbergur skrifaði sögu stúlkunnar, um samskipti þeirra og sýn hennar á heiminn. Var lýsingin sú að þetta væri „sönn saga“ um „minnstu manneskju á Íslandi“.

Bókin Sálmurinn um blómið kom út í tveimur bindum á árunum 1954-1955 og segir frá samskiptum Guðs, Sobbegga afa og Lillu Heggu, en svo nefndi höfundurinn sögupersónu sína. Sálmurinn um blómið þykir um margt einstakt bókmenntaverk og vitnar um Þórberg sem galdrameistara í frásagnarlist og stíl. Helga Jóna var þó um margt feimin gagnvart þessari sögu um sig og las hana fyrst komin á miðjan aldur, þá með barnabarni sínu.

Helga Jóna fór tæplega tvítug til náms í Þýskalandi þar sem hún kynntist fyrri manni sínum, Agli Gunnlaugssyni, sem þar var við dýralæknanám. Þau sneru heim 1964 og settust þá að á Hvammstanga. Börn þeirra eru þrjú; Þórbergur, Jórunn Anna og Gunnlaugur. Seinni maður Helgu Jónu var Grétar Leví Jónsson og settust þau að í Hafnarfirði. Börn þeirra eru Ragnheiður Jóna og Ásbjörn Leví. Komin á miðjan aldur fór Helga Jóna í sjúkraliðanám og starfaði sem slík á ýmsum stofnunum, meðal annars við aðhlynningu geðsjúkra.

Útför Helgu Jónu fer fram frá Fossvogskirkju föstudaginn 28. febrúar klukkan 11.

Helga Jóna Ásbjarnardóttir og Þórbergur Þórðarson.
Helga Jóna Ásbjarnardóttir og Þórbergur Þórðarson.
Helga Jóna Ásbjarnardóttir og Þórbergur Þórðarson.
Helga Jóna Ásbjarnardóttir og Þórbergur Þórðarson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »