Viðbragð ekki uppfært enn sem komið er

Sjö Íslendingar sæta sóttkví á hóteli á Tenerife.
Sjö Íslendingar sæta sóttkví á hóteli á Tenerife. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn þykir ekki ástæða til að uppfæra viðbragð vegna kórónuveirunnar COVID-19 eða auka ferðaviðvaranir. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Tvö smit voru staðfest til viðbótar hjá gestum hótelsins H10 Costa Adeje Palace, en þau sem greindust með smitin nýju voru einnig Ítalir og höfðu tengsl við lækninn sem greindist fyrst og eiginkonu hans. Rögnvaldur segir að á meðan augljós tengsl séu á milli smitaðra sé ekki talin ástæða til að breyta viðbragði hérlendis.

Fjögur kórónuveirusmit hafa nú verið staðfest á Tenerife, en þau sem greindust eru öll Ítalir sem dvöldu á H10 Costa Adeje Palace, þar sem þúsund manns sæta nú sóttkví, þar af sjö Íslendingar. 

Einn látinn af veirunni í Frakklandi

Þá hafa yfir 300 greinst með veiruna á Norður-Ítalíu og ellefu látist. Þá hafa einstaklingar greinst með COVID-19 í Austurríki, Króatíu og Sviss, en öll smitin má rekja til Ítalíu.

AFP fréttastofan greindi svo frá því í morgun að fyrsti Frakkinn væri látinn af völdum kórónuveirunnar í Frakklandi. Þá hefur fyrsta smitið í Suður-Ameríku verið staðfest, en þar greindist maður í Brasilíu sem var nýkominn heim úr ferðalagi til Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert