Meiri kraftur í skeytasendingum en samningagerð

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Ég vildi óska að sami kraftur væri settur í samningagerðina og ítrekað virðist fara í skeytasendingar í minn garð og samninganefndar borgarinnar.“ Þetta skrifar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á Facebook en hann harmar að ekki hafi gengið hraðar að ná samningum á milli borgarinnar og Eflingar.

Efling sleit fundi í kjaradeilunni í gær, þeim fyrsta sem haldinn hefur verið í viku. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði meðal annars eftir fundinn að borgin hefði boðið upp á nákvæmlega sama tilboð og viku áður.

„Nú síðast hefur forysta Eflingar reynt að sá tortryggni um hvort tilboð Reykjavíkurborgar varðandi starfsfólk í leikskólum sé ekki það sama við samningaborðið og kynnt hefur verið opinberlega, þar með talað í Kastljós-viðtali við mig í síðustu viku. Því er einfalt að svara: að sjálfsögðu. Tilboð borgarinnar myndi hækka meðal grunnlaun almennra starfsmanna á leikskólum úr 310 þús í 420 þús á mánuði,“ skrifar Dagur á Facebook.

Hann bætir því við að ofan á þær tölur komi álagsgreiðslur sem greiddar hafi verið á leikskólum og eigi að halda áfram. Heildarlaun í lok samningstímans yrðu því 460 þúsund krónur á mánuði.

„Þetta er gott tilboð um mikla hækkun lægstu launa sem er hér með ítrekað. Fyrir ófaglærða deildastjóra á leikskóla úr röðum Eflingar myndu grunnlaun hækka í 520 þús. að meðaltali á mánuði. Með áðurnefndum álagsgreiðslum eru heildarlaun þessa hóps 572 þús. á mánuði. Getur þetta verið skýrara?“ spyr borgarstjóri.

 

mbl.is