Stöðvaðir í startholunum á K2

Fjallgöngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson hafði gert ráð fyrir því að standa á toppi K2 í Pakistan um þetta leyti en eins og fram hefur komið þurfti hann frá að hverfa þegar leiðangurinn var skammt á veg kominn. Verkefnið var ærið en K2 er almennt talið eitt hættulegasta fjall heims og hefur í ofanálag aldrei verið klifið að vetri til. Í samtali við mbl.is segir hann frá því hvernig leiðangurinn leystist upp án þess að ná svo mikið sem að öðrum búðum af fjórum í fjallinu. Grunur leikur á að ekki hafi allir leiðangursmenn verið í honum af heilum hug.  

Hópurinn samanstóð af átta klifrurum. Þeir John Snorri, yfirlýstur leiðangursstjóri og Thomaz Rotar, slóvenskur skurðlæknir og þrautreyndur fjallamaður, komu frá Evrópu. Þrír klifurmenn voru nepalskir sherpar, þeir Passang Namke, Tamting og Phur Galjen, allir eru atvinnuleiðangursmenn sem fá borgað fyrir að ganga með hópnum og það sama er að segja um Pakistanann Serbaz. Þá eru eftir Kínverjinn Gao Li og Sherpinn Mingma G sem er þekktur fjallamaður. Allir hafa mikla reynslu af því að klífa fjöll sem eru yfir átta þúsund metra há. Þau hæstu í heimi. Þetta var sterkasti hópur sem ég gat hugsað mér að taka með á fjallið,“ segir John Snorri sem hittir mig í hesthúsi sem hann er að gera upp í efri byggðum Kópavogs. Hann hefur lítið tjáð sig um hvað gerðist á fjallinu fyrir mánuði en leiðangurinn hafði eðlilega vakið mikla athygli bæði hérlendis og í háfjallamennskugeiranum. Sá sem verður fyrstur til að klífa K2 að vetrarlagi skráir nafn sitt í sögubækurnar.    

Hópurinn sem ætlaði á toppinn. Gao Li, John Snorri, Mingma …
Hópurinn sem ætlaði á toppinn. Gao Li, John Snorri, Mingma G., Serbaz Khan, Tomaz Rotar, Passang Namke Sherpa, Tempting Sherpa og Phur Galjen. Ljósmynd/Aðsend

Ferðalagið hófst í byrjun janúar í Islamabad í Pakistan og strax í upphafi kom hökt í leiðangurinn. Mingma og Gao Li koma fimm dögum of seint. Það var svolítið súrt og seinkaði ferðinni,“ segir John Snorri. Önnur minni háttar vandamál settu strik í reikninginn sem gerði það að verkum að ferðinni hafði seinkað um nánast eina og hálfa viku áður en í grunnbúðirnar var komið allt þó innan þeirra marka sem eðlilegt er.

John Snorri kemur upp að klöppinni þar sem fyrstu búðum …
John Snorri kemur upp að klöppinni þar sem fyrstu búðum var slegið upp. Ljósmynd/Aðsend

Eftir ferðalag um óbyggðir Pakistan með tæplega hundrað manna fylgdarliði sem bar vistir fyrir hópinn var slegið upp grunnbúðum þann 22. janúar. Þær voru sex kílómetrum frá ABC (advanced base camp þar sem klifrið upp K2 hefst) sem er nokkuð ríflegt en ákvörðun um það var tekin til að ná meira sólskini á búðirnar yfir daginn. Eftir það halda burðarmennirnir heim og átta manna hópurinn er einn eftir. Fyrsta verkið var að fara með klifurbúnað, súrefniskúta og annað nauðsynlegt hálfa leið í búðir eitt áður en snúið var aftur í grunnbúðirnar. 

26. janúar var svo farið með búnað og línur festar alveg í búðir eitt. Þar ákváðu Mingma, Gao Li og Serbaz að dvelja yfir nóttina í búðum eitt. „Þetta kom mér og Tomaz aðeins á óvart,“ segir John. Slíkt sé ekki vaninn en ekkert til að gera veður út af. Þeir hafi ætlað að halda áfram daginn eftir og byrja að leggja línur upp í búðir tvö.

Fjallið er bratt og línurnar sem lagðar eru þurfa að …
Fjallið er bratt og línurnar sem lagðar eru þurfa að halda. Ljósmynd/Aðsend

Um nóttina hvessti og varð verulega kalt en í búast má við 40 gráðu frosti í þessari hæð. Þegar hærra í fjallið kemur verður kuldinn enn meiri og svefnpoki sem John hafði með sér til að nota í efri búðum er gefinn út fyrir að þola 70 gráðu frost. John og Tomasz grunar að þremenningarnir hafi orðið óttaslegnir þarna um nóttina. „Það er eins og aðstæður hafi verið öðruvísi en þeir höfðu reiknað með og þeir koma niður án þess að gera neitt af því sem lagt var upp með.“ 

Á Facebook-síðu Mingma G. er farið yfir hans sýn á leiðangurinn. Þar kemur fram að rakinn inni í tjaldinu hafa verið meiri en hann átti von á en einnig að vindurinn hafi haldið fyrir þeim vöku. Aðstæðurnar á K2 hafi komið honum og samlöndum hans á óvart og væru ólíkar vetraraðstæðum í Nepal. Eftir það fóru þeir aldrei aftur upp í fjallið en John segist ekki hafa fengið almennilega útskýringu á þeirri afstöðu.

Horft upp fjallið varasama.
Horft upp fjallið varasama. Ljósmynd/Aðsend

Nokkrum dögum síðar halda þeir John og Tomaz ásamt Sherpunum þremur Namke, Tamting og Phur Galjen aftur í búðir eitt og markmiðið var að fara þaðan í búðir tvö. Eftir að hafa gist í fyrri búðunum og verið er búa sig undir að halda áfram kemur ljós að sherparnir eru ekki á uppleið heldur fara þeir aftur niður í grunnbúðir. „Þegar ég spurði þá út í þetta sögðu þeir að svefnpokarnir væru blautir,“ segir John Snorri og bætir því við að þetta sé eitthvað sem gerist þegar frostið er svo mikið að rakinn sem kemur frá andardrætti fólks frýs inni í tjöldunum og ætti ekki að koma á óvart.

Þeir Tomasz héldu þó áfram og voru tvo daga í fjallinu að leggja línur upp í búðir tvö. Ekki var mikið eftir í þær þegar þreytan og kuldinn fór að taka sinn toll og þeir ákváðu að halda aftur niður í grunnbúðir. Nokkuð ánægðir með afraksturinn. Hins vegar fannst þeim óásættanlegt að vera án þeirra sem áttu að vera þeim innan handar í verkefninu og á þessum tímapunkti er gremjan hjá tvíeykinu augljós eins og sjá má í myndskeiðinu.  

Enn um sinn þarf að bíða þess að ná toppi …
Enn um sinn þarf að bíða þess að ná toppi K2 að vetri til. Ljósmynd/Aðsend

Þegar niður var komið vildu tvímenningarnir Mingma og Gao Li halda til síns heima þar sem Mingma sagðist vera kominn með háfjallaveiki og Gao Li vildi vitja ættingja sinna í Kína vegna kórónuveirunnar. Hugmyndin var að sjúkraþyrla myndi sækja Mingma og John segir að þegar þarna var komið við sögu hafi honum litist ágætlega á það þar sem tónninn í þeim félögum hefði verið heldur neikvæður. „Það vantaði allan kraft í hann, [Mingma] ég upplifði hann í ekki nógu góðu formi og þreyttan. Þá sá ég fyrir mér að ég og Tomasz yrðum eftir ásamt sherpunum þremur og Pakistananum Serbaz.“

Hugmyndin var þá að sherparnir færu í fjallið og kláruðu að leggja línurnar í búðir tvö. Þangað væri þá hægt að fara með búnað og vera svo yfir nótt. Aðstæður voru heppilegar á þessum tímapunkti en útlit var fyrir að næst gæfist ekki færi á að fara í verkefnið fyrr en að viku liðinni þar sem veðurspáin var óhagstæð.

Leiðin að seinni grunnbúðum þar sem klifrið hefst, liggur yfir …
Leiðin að seinni grunnbúðum þar sem klifrið hefst, liggur yfir sprunginn ís. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem gerist þarna er að Sherparnir verða einhverra hluta vegna ósáttir við að ég fari ekki með þeim. Ég hins vegar sá engan tilgang með því þar sem að þetta var ekki stórt verkefni,“ útskýrir John Snorri.  

Þeir hafi þó látið undan og lagt af stað. Hins vegar leið ekki á löngu þar til þeir hafa samband og segja að einn sherpinn hafi fallið ofan í sprungu og sé meiddur á fæti. Hann hafi þó gengið sex kílómetra yfir sprungusvæði til baka sem segi eitthvað um alvarleika meiðslanna. „Þarna fer maður að hugsa hvað sé eiginlega í gangi og þarna ákveður Tomasz að halda heim á leið. En ég met stöðuna þannig að ég hafi enn tvo sherpa með mér og Pakistanann Serbaz. Vel sé hægt að ná toppnum úr þessu.“

Næturnar í fyrstu búðum urðu færri en reiknað var með.
Næturnar í fyrstu búðum urðu færri en reiknað var með. Ljósmynd/Aðsend

Þegar verið er að undirbúa komu þyrlanna (björgunarþyrlur ferðast einungis í pörum á þessum slóðum) sem áttu að sækja Gaoli, Ming Ma og meidda Sherpann kemur í ljós að vegabréfsáritun sherpanna þriggja gilti einungis fram til 29. febrúar. Þetta hafi John Snorra og Tomazi þótt afar sérstakt þar sem frá upphafi hafi verið ljóst að hópurinn þyrfti meiri tíma í fjallinu til að klára verkefnið.

15-20 daga tæki þá að komast aftur til byggða. Engin leið var til að fá þá til að afhenda vegabréfin svo þau gætu farið með þyrlunni til byggða og þaðan til Islamabad til að fá framlengingu. Þeir gætu því einungis verið í 10-12 daga til viðbótar í fjallinu með John Snorra. Til að bæta gráu ofan á svart kom í ljós að matarbirgðirnar sem hópurinn hafði með sér í grunnbúðirnar dugðu einungis fyrir hópinn í einn mánuð en það hafði verið Mingma G. sem sá um að panta matarbirgðirnar, þetta kemur fram í bréfi Tomaz sem birt er í Morgunblaðinu í dag.

John Snorri taldi enn gerlegt að komast upp í búðir þrjú með framlagi sherpanna tveggja. Eftir það yrðu það hann og Serbaz sem myndu fara síðustu leggina og styðja hvor annan í klifrinu á lokametrunum sem er afar tæknilegt og snúið. Hins vegar hafi þetta lagst afar illa í Serbaz sem þverneitaði að taka þátt í því. 

John Snorri og slóvenski skurðlæknirinn Tomaz Rotar. Í Morgunblaðinu í …
John Snorri og slóvenski skurðlæknirinn Tomaz Rotar. Í Morgunblaðinu í dag er birt grein þar sem Rotar segir nauðsynlegt að fá betri útskýringar á því af hverju fór sem fór á fjallinu. Ljósmynd/Aðsend

Auðvitað verður að hafa í huga að K2 er alræmt fjall og talað er um að einn af hverjum fjórum sem reyna að komast á toppinn láti lífið á leiðinni. John Snorri segir þó að aðstæðurnar hafi verið í fullu samræmi við það sem búast mátti við og jafnvel betri. „Þarna var ég orðinn einn og þeir sem þekkja mig áttu ekki von á því að ég myndi hætta þó að ég væri orðinn einn. En þetta er eiginlega ekki hægt nema að þú sért með einhvern til að tryggja þig. Hrasir þú þá er þetta búið.“

Ein af ástæðunum fyrir því að svo fór sem fór virðist vera að ekki hafi verið algerlega á hreinu hver færi fyrir leiðangrinum. Mingma sem er mjög þekktur í geiranum virðist hafa verið leiðtogi sherpanna og þegar hann fékk efasemdir lítur út fyrir hinir hafa misst móðinn. Í fyrrnefndri færslu hjá Mingma segist hann vera að skipuleggja aðra tilraun til að toppa K2 að vetri til og að í það skiptið muni hann einungis hafa með sér nepalska klifurmenn. 

Náttúruöflin við K2 bregða á leik.
Náttúruöflin við K2 bregða á leik. Ljósmynd/Aðsend

Í bréfi sem Tomaz hefur skrifað og sent á fjölmiðla setur hann spurningarmerki um hvernig leiðangursmennirnir fyrir utan hann og John Snorra hafi nálgast verkefnið. Það sem helst bendi til þess að ekki hafi hugur fylgt máli séu vegabréfsáritanir sherpanna, meiðslin dularfullu sem virðast hafa horfið og matarbirgðirnar sem ljóst var að dygðu ekki. Þetta þurfi að útskýra þar sem kostnaðurinn af hálfu hans og Johns Snorra sé í kringum 12 milljónir króna. John Snorri segir svik í leiðöngrum vel þekkt og hið sama kemur fram í bréfi Tomazar. „Því miður er þetta þekkt hjá sherpunum og það er stór ástæða fyrir því að þeir eiga í vandræðum með að kaupa tryggingar í leiðangra. Þeir fara með fólk upp í búðir þrjú og segja svo að ekki sé hægt að fara hærra af ýmiss konar ástæðum,“ segir John Snorri. Fljótleg google-leit staðfestir það og fjallað hefur verið um slík svik í The Guardian, The Telegraph og CNN. Hann tekur þó skýrt fram að ekkert sé staðfest um svik í málinu, einfaldlega að margt sé óútskýrt.  

John Snorri hefur þó ekki lagt árar í bát og hyggst reyna við fjallið að ári en leggja þá fyrr af stað og vera einn ásamt 3-4 pakistönskum burðarmönnum þar sem allt ákvörðunarvald verði hjá honum. Mingma G. hefur einnig tilkynnt svipaðar áætlanir en eftir þrjú ár. Það er því ljóst að kapphlaupið um hver muni verða fyrstur til að ganga á topp K2 að vetri til er hvergi nærri búið.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert