Biðja ökumenn að virða lokanir á Austurlandi

Nær allir vegir til og frá Egilssöðum eru lokaðir. Ófært …
Nær allir vegir til og frá Egilssöðum eru lokaðir. Ófært er um Fagradal en einnig um Fjarðarheiði svo dæmi séu tekin. Lögregla biður ökumenn vinsamlegast að virða lokanir. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Kolvitlaust veður er nú á Austurlandi og að minnsta kosti tveir árekstrar hafa orðið í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi á síðasta klukkutímanum. Dæmi eru um að vegfarendur virði ekki vegalokanir og segir Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, það miður og biðlar til ökumanna að fara eftir fyrirmælum. 

Tveir bílar rákust saman í Fagradal og hefur veginum verið lokað. Ekki er um alvarlegt slys að ræða að sögn Jens en viðbragðsaðilum gengur erfiðlega að athafna sig sökum lélegs skyggnis. Þá varð þriggja bíla árekstur í Langadal, milli Möðrudals og afleggjarans að Vopnafirði. 

Allir vegir til og frá Egilsstöðum eru meira og minna ófærir og ökumenn hafa einnig lent í vandræðum á vegum nærri byggð. Gul veðurviðvörun vegna austan hríðar er í gildi á Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og miðhálendinu. 

„Það er lítið sem ekkert skyggni og ekkert ferðaveður á svæðinu,“ segir Jens. 

Hér má sjá hvaða vegum hefur verið lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert