EVE Fanfest aflýst vegna kórónuveirunnar

EVE Fanfest hefur farið fram í Hörpu undanfarin ár og …
EVE Fanfest hefur farið fram í Hörpu undanfarin ár og til stóð að það færi þar fram eftir rúman mánuð. Ekkert verður af því. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Íslenska tölvuleikjafyrirtækjafyrirtækið CCP hefur ákveðið að aflýsa EVE Fanfest í öryggisskyni vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Tilkynning þessa efnis hefur verið birt á vef tölvuleiksins EVE Online, en Fanfestið er árlegur viðburður þar sem spilarar tölvuleiksins koma saman.

Til stóð að hátíðin færi fram eftir rúman mánuð, helgina 2.-4. apríl, en á annað þúsund erlendra spilara hafa sótt EVE Fanfest heim á undanförnum árum.

Í tilkynningu CCP segir að það hafi verið erfitt að taka þessa ákvörðun, en fyrirtækið telji sig þurfa að taka eins ábyrga ákvörðun og hægt er og setja öryggi og heilsu gesta, starfsfólks og íslensks almennings í forgang. 

Skipuleggjendur hátíðarinnar segja ákvörðunina erfiða en hún sé nauðsynleg í ljósi aðstæðna. Hjá ýmsum alþjóðlegum fyrirtækjum séu nú í gildi takmarkanir á lengri ferðalögum starfsmanna. Eftir ítarlega greiningu á áhrifum þessara ráðstafana á skráða þátttakendur á Fanfest, sem og þeirri staðreynd að margir spilarar EVE sem sæki hátíðina komi um langan veg og frá öllum heimshornum, hafi verið ljóst að óhjákvæmilegt væri að hætta við hátíðina í ár. Ákvörðunin hafi verið tekin að vandlega íhuguðu máli.

EVE Fanfest er fyrsti stóri viðburðurinn sem aflýst er hér á landi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert