Gular viðvaranir og áframhaldandi óvissustig

Staðan klukkan sex annað kvöld.
Staðan klukkan sex annað kvöld. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Gular viðvaranir eru í gildi á Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum en á báðum stöðum er austanhríð. Þá er enn í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Austurlandi. Töluverður snjór er á svæðinu og er mikilli úrkomu spáð til hádegis á morgun. Búast má við að snjóflóðahætta geti skapast í veðri sem þessu en enn sem komið er er ekki talin hætta á að snjóflóð falli í byggð. 

Í fyrramálið tekur gul viðvörun gildi á Suðausturlandi en um hádegisbilið á miðhálendinu. Einnig er gert ráð fyrir vonskuveðri á Suðurlandi á morgun og tekur gul viðvörun gildi þar klukkan sex annað kvöld.

„Áfram er spáð rysjóttu veðri næstu daga. Bæði verður veður breytilegt milli landshluta og milli tímabila. Hyggilegt er að taka upplýsingar um veður og færð með í reikninginn þegar ferðalög eru skipulögð“, segir í athugasemd veðurfræðings. 

Búast má við því að færð spillist á Vestfjörðum og Norður- og Austurlandi, samkvæmt vefsíðu Vegagerðarinnar. Vetrarfærð er á flestum leiðum á Suðvesturlandi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is