Man ekki eftir öðrum eins sköflum

Björgunarsveitarfólk á ferðinni. Myndin er úr safni.
Björgunarsveitarfólk á ferðinni. Myndin er úr safni. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur haft í nógu að snúast við að aðstoða ökumenn í ófærðinni í bænum og í nágrenni hans.

„Ég man ekki eftir svona sköflum sem eru sums staðar hérna í bænum,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar. Hann nefnir að það hafi skafið vel og tveggja til þriggja metra skaflar hafi myndast. „Það er ótrúlega mikið af sköflum, bæði háum og miklum.“

Að sögn Boga voru verkefnin ekki mörg í morgun en langan tíma tók engu að síður að sinna þeim og að komast á milli staða vegna blindhríðar.

Bogi Adolfsson hjá björgunarsveitinni Þorbirni.
Bogi Adolfsson hjá björgunarsveitinni Þorbirni. mbl.is

Flest verkefnin voru á Grindavíkurvegi og veginum að Bláa lóninu, auk þess sem eitthvað var um verkefni á Reykjaneshringnum. Oftast var um vörubíla og rútur að ræða en erlendir ferðamenn lentu einnig í vandræðum, enda sumir hverjir óvanir aðstæðum sem þessum.

Bogi segir að átta tæki sinni núna snjómokstri í Grindavík.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum kemur fram að björgunarsveitir hafi kallað á auka mannskap til að takast á við verkefni morgunsins. „Það er verið að setja lokapunktinn á þetta og klára einstaka verkefni,“ sagði varðstjóri hjá lögreglunni, en einna mesta álagið hefur verið á Ásbrú þar sem margir festu sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert