„Með því versta sem við höfum lent í“

Fjölmargir ferðamenn sátu fastir í bílum sínum við Jökulsárlón á …
Fjölmargir ferðamenn sátu fastir í bílum sínum við Jökulsárlón á Sólheimasandi. Mynd úr safni. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

„Þetta var með því versta sem við höfum lent í. Veðrið var slæmt og mjög blint,“ segir Jón Hermannsson, hjá svæðis­stjórn Suður­lands, um verkefni björgunarsveita Suðurlands í nótt. Um 100 björgunarsveitarmenn á um 20 ökutækjum aðstoðuðu um 150 ferðamenn sem sátu fastir í bílum sínum á Suðurlandi. Flestir þeirra voru við Jökulsárlón á Sólheimasandi. 

Ferðamönnunum var komið fyrir á þremur stöðum í nótt. Um 100 manns gistu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Heimalandi, tæplega 40 manns gisti á Skógum og um 10 manns fengu gistingu á öðrum stöðum. Reynt var að miða að því að fólk væri sem næst bílum sínum.  

Núna er hefur verið náð í flesta ökumenn bílanna og unnið er að því að aðstoða þá við að losa bílana og koma þeim aftur af stað.  

Veðrið var það slæmt á tímabili í nótt að björgunarsveitarfólk þurfti að halda kyrru fyrir í bílum sínum. Þegar veðrinu slotaði um tíma var hægt að ná í fólkið og koma því í gistingu. „Sumum var aðeins brugðið því það hafði aldrei lent í svona vondu veðri áður,“ segir Jón en að öður leyti amaði ekkert að fólkinu.  

„Það er afskaplega mikið af ferðamönnum á Suðurlandi á þessum tíma. Þeir dvelja kannski stundum óvart lengur á hverjum stað en þeir stefndu að og þeir fylgdust ekki með veðurspá,“ segir Jón spurður hvers vegna hann telji jafn marga ferðamenn hafi verið á ferli þrátt fyrir appelsínugula veðurviðvörun. 

Jón segir verkefnið sem hafi verið umfangsmikið hafi heppnast vel og ánægja með hvernig til tókst. Innan sveitarinnar eru miklir reynsluboltar sem fari í fjölbreytt útköll meðal annars upp á hálendi og þeir sögðust aldrei hafa upplifað annað eins, að sögn Jóns. 

Spurður hvort hann eigi myndefni frá nóttinni, hlær hann og útskýrir að ekkert sjáist á myndunum sem hann hafi séð. Slíkur var veðurhamurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert