Um 100 gistu í fjöldahjálparstöð að Heimalandi

Björgunarsveitarmenn náðu í farþega bílanna. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn náðu í farþega bílanna. Mynd úr safni. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Um 100 manns eru enn í fjöldahjálparstöð að Heimalandi undir Eyjafjöllum sem Rauði krossinn  opnaði klukkan 3 í nótt. „Það fer mjög vel um alla. Við erum að bíða eftir að björgunarsveitirnar komi og nái í bílstjóra bílanna,“ segir Árný Hrund Svavarsdóttir sjálfboðaliði Rauða krossins. Núna er beðið eftir að vegirnir verði færir á ný. Til viðbótar fengu 38 ferðamenn gistingu á Skógum í nótt, einnig vegna ófærðar.

Fólkið er flestallt erlendir ferðamenn sem voru á bílaleigubílum á eigin vegum á þjóðveginum undir Eyjafjöllum og austur að Skeiðarársandi. Í hópnum eru farþegar 20 manna rútu sem er með íslenskan fararstjóra.

Árný segir fólkið rólegt og flestallir komnir á ról. Fjöldahjálparstöðin opnaði klukkan 3 í nótt sem fyrr segir og flestir voru sofnaðir um klukkan fimm í nótt, að sögn Árnýjar. Björgunarsveitirnar náðu í fólkið sem sat fast í bílum sínum allt frá Skeiðarársandi og að Heimalandi. 

Árný segir verkefnið hafa gengið vel, greiðlega gekk að koma sjálfboðaliðum á staðinn sem og fólkinu. Góð aðstaða sé í Heimalandi til að opna fjöldahjálparmiðstöð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert