Allir sem komu frá Veróna í sóttkví

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er hér fremstur á …
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er hér fremstur á myndinni. mbl.is/Arnþór

Karlmaður á sextugsaldri var í dag greindur með kórónuveiruna Covid-19 á Íslandi. Um er að ræða annað tilfellið sem komið hefur upp hér á landi. Að sögn Víðis Reynisson hjá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra er nú verið að hafa samband við þá 180 sem ferðuðust með flugvél Icelandair til landsins frá Ítalíu og þeir beðnir um að vera í sóttkví næstu tvær vikurnar.

Að sögn Víðis setti maðurinn sig í samband við heilbrigðisyfirvöld við komuna til Keflavíkur í gær. Sýndi hann einkenni og voru í framhaldinu tekin sýni úr honum og einni annarri manneskju. Sýni úr henni reyndist neikvætt. „Hann gaf sig fram með flensulík einkenni sem síðan seinni partinn í dag reyndist jákvætt," segir Reynir. Hann segir að maðurinn sé ekki mikið veikur.

Víðir segir að maðurinn hafi hafi verið í hópferð en enn sem komið er hafi ekki borist upplýsingar um veikindi annarra.

Að sögn Víðis er nú búið að útvíkka áhættusvæði á Ítalíu á þann veg að nú er öll Ítalía undir í stað þess að hættan sé bundin við tiltekin svæði á Ítalíu.

Hann segir að nú sé unnið í því að hafa samband við alla þá farþega sem voru í fluginu og verða þeir beðnir að halda sig heimavið næstu tvær vikurnar.

„Við erum að senda upplýsingar til fólks í gegnum fjölmiðla núna. Allir munu fá tölvupóst frá okkur og við munum síðan hafa samband við alla. Það mun taka kvöldið í kvöld að ná til allra og við viljum líka biðja þá sem eru með einkenni og hafa ekki látið vita af því að hafa samband við síma 1700,“ segir Víðir.

Hann segir að eingöngu verði tekin sýni úr þeim sem sýna flensulík einkenni.

Víðir segir að unnið verði að því að rekja upptök sýkingarinnar í manninum. Ekki sé hópurinn sem hann ferðaðist með undir sérstöku eftirliti, heldur nái þetta til allra farþega.

Að sögn Víðis var fólk á öllum aldri í fluginu. „Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga þegar talað er um sóttkví, þá getur fólk alveg verið í samskiptum við aðra fjölskyldumeðlimi t.a.m. þó að það hafi ekki verið í flugvélinni, svo lengi sem fólk er einkennalaust,“ segir Víðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert