Tveir til viðbótar greindust í dag

25 sýni hafa verið rannsökuð í dag.
25 sýni hafa verið rannsökuð í dag. mbl.is/Hallur Már

Tveir einstaklingar til viðbótar greindust í dag með kórónuveiruna sem veldur COVID-19-sjúkdómi og eru tilfellin á Íslandi því orðin samtals 35. Viðkomandi einstaklingar eru í einangrun, samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Allir þessir 35 einstaklingar, þar á meðal þeir sem greindust með veiruna í dag, voru á ferðalagi á Norður-Ítalíu eða Austurríki, og höfðu því fengið ráðleggingar um að fara beint í sóttkví við heimkomu.

Einn hefur þegar verið útskrifaður af Landspítala og er heima í sóttkví. Um 400 manns, sem hafa verið í samskiptum við viðkomandi einstaklinga, eru í sóttkví. Smitrannsóknateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og sóttvarnalæknis hefur haft samband við viðkomandi einstaklinga og hafa þeir notið liðsinnis heilbrigðisstarfsmanna frá Landspítala.

Í dag hafa um 25 sýni verið rannsökuð á Landspítala og unnið er að því að auka afkastagetu í greiningu smita á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Frá upphafi hafa um 330 sýni verið rannsökuð.

Ferðaþjónustuaðilar og erlent ferðafólk hefur verið upplýst með upplýsingabæklingum og upplýsingaskjáir Safe Travel hafa verið uppfærðir. Þá hafa Ferðamálaráð og Inspired by Iceland opnað upplýsingasíður.

Íslendingarnir tíu sem eru í sóttkví á Tenerife fara í veirupróf á morgun. Verði sýnin neikvæð mega þeir fljúga frá Tenerife á laugardag með beinu flugi til Íslands. Þá vinnur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að undirbúningi móttöku flugvélar frá Verona næstkomandi laugardag, en Isavia hefur umsjón með móttöku flugvélarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Alls hafa kórónuveirusmit verið staðfest hjá 96.888 einstaklingum víða um heim og um 3.305 einstaklingar látist. Dánartíðnin er því um 3,5 prósent. Samkvæmt John Hopkins hafa 53.638 einstaklingar náð sér eftir veikindin. Sóttvarnastofnun Evrópu hefur breytt áhættumati sínu yfir í að faraldurinn geti orðið meðalstór eða mikil lýðheilsuógn.

Kína, Suður-Kórea, Íran, Ítalía og skíðasvæðið Ischgl í Austurríki eru nú skilgreind sem áhættusvæði vegna veirunnar og þurfa allir þeir sem hafa fasta búsetu á Íslandi og koma frá þessum svæðum – þó svo að þeir fljúgi frá flugvöllum sem ekki eru á skilgreindu áhættusvæði – að fara í 14 daga sóttkví. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert