Áhrif kórónuveiru á ferðaþjónustu skoðuð

Vinna er hafin við undirbúning markaðsátaks á áfangastaðnum Íslandi sem …
Vinna er hafin við undirbúning markaðsátaks á áfangastaðnum Íslandi sem verður klárt þegar sést til sólar. mbl.is/Eggert

Ferðamálaráðherra upplýsti í gær ríkisstjórnina um samráðshóp þriggja ráðuneyta sem mun leggja mat á áhrif COVID-19-faraldurs á starfsemi fyrirtækja, fjármalakerfið og efnahaginn í víðu samhengi. Þar með talið afkomu hins opinbera. Ferðaþjónustan verður sérstaklega skoðuð í ljósi mögulegra áhrifa á hana og afleidd áhrif á íslenskt efnahagslíf og ríkissjóð. Þetta kemur fram í svari frá Þórdís Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið hópsins er að skapa sem gleggsta yfirsýn yfir stöðu og þróun mála og sem traustastan grundvöll fyrir ákvarðanatöku sem lýtur að viðbúnaði og viðbrögðum stjórnvalda við mikilli óvissu.

„Líklegt er að áhrif faraldursins og óvissa honum tengd muni komi fram snemma og mögulega af þunga í ferðaþjónustu og tengdri starfsemi. Áhrifin eru einkum háð því hversu mikið ferðamönnum fækkar og því hversu lengi slíkt ástand varir. Ljóst er að þar sem staðan breytist frá degi til dags verður óhjákvæmilegt að endurmeta hana og hugsanleg viðbrögð eftir framvindu mála hér og um heim allan. Væntingar eru um að eftirspurn eftir ferðaþjónustu gæti skilað sér hratt aftur ef óvissan gengur tímanlega til baka,“ segir Þórdís.

Undirbúa alþjóðlegt markaðsátak

Samráðshópurinn mun áfram greina og fylgjast með þróun eftirspurnar í ferðaþjónustu og þeim úrræðum sem gripið er til á alþjóðavísu til að bregðast við minnkandi eftirspurn.  

„Við undirbúning úrræða og stuðnings sem hægt er að beita til þess að draga úr áföllum og skaða er mikilvægt að sem gleggstar og traustastar upplýsingar liggi fyrir til að aðgerðir skili sem mestum árangri.“

Einnig er vinna hafin við undirbúning alþjóðlegs markaðsátaks á áfangastaðnum Íslandi. Slíku átaki er ekki hleypt af stokkunum við þessar aðstæður en þarf að vera klárt þegar við sjáum til sólar, að sögn Þórdísar. Þá er vinna hafin við undirbúning markaðsátaks til að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands á næstu vikum og mánuðum.

mbl.is