„Það eru ekki teknir neinir sénsar“

Kennslumyndbandið sem framleitt var mun nýtast öllum viðbragðaðilum enda nota …
Kennslumyndbandið sem framleitt var mun nýtast öllum viðbragðaðilum enda nota þeir allir sama hlífðarfatnaðinn. Ljósmynd/Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu

Ráðist hefur verið í ýmsar aðgerðir hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu undanfarið til þess að lágmarka hættuna á dreifingu kórónuveirusmita þegar farið er í útköll vegna grunaðra eða staðfestra smita.

Fjárfest hefur verið í sérstökum búnaði sem sótthreinsar sjúkra- og lögreglubíla að innan eftir að útkalli er lokið, sett hefur verið upp sótthreinsunaraðstaða og aðstaða til að einangra möguleg smit í húsakynnum slökkviliðsins í Skógarhlíð og þá er búið að framleiða myndband sem kennir viðbragðsaðilum að nota og umgangast hlífðarfatnað og búnað.

„Það eru ekki teknir neinir sénsar. Hvorki á því að við smitumst né á því að við smitum aðra,“ segir Kristján Sigfússon, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við blaðamann sem fékk að heimsækja slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og skoða nýja sótthreinsibúnaðinn og aðstöðuna.

Mistur leggst á snertifleti og drepur bakteríur

Sótthreinsivélarnar tvær sem voru keyptar eru ekki tilkomumiklar í útliti og minna frekar á litla handryksugu en eitthvað annað. Notagildi þeirra vegur hins vegar upp á móti útlitinu en þær þykja mjög öflugar og skilvirkar.

„Þessar vélar eru meðal annars notaðar á spítölum til þess að sótthreinsa rými. Vélarnar búa til mistur sem leggst á alla fleti og drepur allar veirur og bakteríur sem mistrið lendir á,“ útskýrir Brynjar Þór Friðriksson, deildarstjóri á aðgerðasviði slökkviliðsins.

Ákveðið var að fjárfesta í sótthreinsivélunum sérstaklega vegna kórónuveirufaraldursins sem gengur nú yfir en þær munu einnig nýtast í framtíðinni og verða þá notaðar í reglubundnum þrifum. „Þetta er framtíðarfjárfesting,“ bætir Brynjar við.

Sótthreinsivélin býr til mistur sem leggst á alla fleti inni …
Sótthreinsivélin býr til mistur sem leggst á alla fleti inni í bílunum og drepur bæði veirur og bakteríur. mbl.is/Árni Sæberg

„Sama tækni og er notuð á skurðstofum“

Í húsakynnum slökkviliðsins í Skógarhlíð er svo aðstaða til að þrífa bíla og tæki en sömuleiðis aðstaða þar sem lögreglumenn, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmenn og björgunarsveitarfólk geta þrifið sig, klætt sig í og úr hlífðarbúnaði bæði fyrir og eftir útköll og jafnvel einangrað sig ef grunur um smit vaknar eftir útkall. Þá fara þeir inn í sérstakt herbergi og bíða þar á meðan sjúklingurinn fer í sýnatöku á spítala og alveg þangað til rannsókn á sýninu er lokið.

„Þetta er sama tækni og er notuð á skurðstofum,“ segir Brynjar en tekur þó fram að slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn séu almennt vel í stakk búnir til að takast á við smitsjúkdóma enda er það ekki nýtt að þeir þurfi að fara í slík útköll. Það sé því ekki stór munur á viðbragði vegna kórónuveirunnar og öðrum sjúkraflutningi heldur er fyllstu varúðar að sjálfsögðu gætt í öllum útköllum.

Sjúkrabílunum er keyrt inn í bílskur, sótthreinsivélarnar settar inn í …
Sjúkrabílunum er keyrt inn í bílskur, sótthreinsivélarnar settar inn í þá og bílunum lokað. Á meðan vélin sótthreinsar bílana að innan eru þeir þrifnir að utan með sérstöku sótthreinsiefni. mbl.is/Þór

Takast á við smitsjúkdóma alla daga

„Við erum að takast á við alls konar smit daglega, ekki bara kórónuveiruna heldur alla mögulega smitsjúkdóma. Þá erum við líka að flytja smitaða sjúklinga á milli stofnana og þess háttar,“ segir Brynjar og bætir því við að sjúkrabílarnir séu vel útbúnir.

„Þeir eru þannig uppsettir að við erum alltaf með búnað til að klæða okkur í og verjast smiti. Þá erum við bæði að hugsa um að verja okkar starfsmenn og bílinn fyrir smiti sjúklings og líka sjúklinginn fyrir smiti frá okkur.“

Hönskum og hlífðarfatnaði er svo hent eftir hvert útkall, föt eru sett í þrif auk þess sem sjúkraflutningamenn þrífa sig eftir þörfum áður en haldið er af stað í næsta útkall. „Við erum í mjög nánum samskiptum við fólk. Það er lítið rými í bílunum og það er stutt á milli okkar þannig að við þurfum að verja okkur vel,“ skýtur Borgar Valgeirsson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, inn í.

Brynjar Þór Friðriksson, deildarstjóri á aðgerðasviði, Borgar Valgeirsson, slökkviliðs- og …
Brynjar Þór Friðriksson, deildarstjóri á aðgerðasviði, Borgar Valgeirsson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og Kristján Sigfússon, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Það kemur veira á eftir þessari veiru

Spurður um nýja kennslumyndbandið sem var framleitt segir Brynjar að með því sé einfaldlega verið að skerpa enn frekar á þeim atriðum og leiðbeiningum sem hafa verið í gildi lengi. Myndbandið sýnir hvernig á að klæða sig í og úr hlífðarfatnaði og losa sig við hann á réttan hátt.

„Það er búið að gefa út leiðbeiningar og við höfum haft þær í mörg ár en með myndbandinu erum við í rauninni að setja þessi mál í enn fastari skorður. Þessar leiðbeiningar eiga líka við miklu fleiri verkefni en það sem við erum í núna því það kemur önnur veira á eftir þessari veiru og annar faraldur á eftir þessum faraldri,“ segir Brynjar.

Kennslumyndbandið mun nýtast öllum viðbragðsaðilum

„Núna er þetta bara til og aðgengilegt og við deilum þessu með öðrum sjúkraflutningamönnum, heilbrigðisstarfsmönnum, björgunarsveitum og lögreglu sem nota sama hlífðarfatnað og við. Með þessu fá þeir leiðbeiningar um það hvernig á að nota hann,“ bætir hann við. 

Að lokum benda þeir félagar á að sýkingar og faraldrar komi reglulega upp í þjóðfélaginu. Kórónufaraldurinn sé þó vissulega umfangsmeiri en aðrir faraldar en mikilvægt sé eftir sem áður að fólki fari varlega, gæti sín og fylgi leiðbeiningum svo hægt sé að koma í veg fyrir frekara smit.

mbl.is