Kári þarf ekki leyfi fyrir skimunum

Ekkert leyfi þarf fyrir skimunum eða þeim rannsóknum sem Kári …
Ekkert leyfi þarf fyrir skimunum eða þeim rannsóknum sem Kári hyggst gera. mbl.is/Golli

Persónuvernd og Vísindasiðanefnd segja skimun og veirurannsókn eins og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, bauðst til að framkvæma vegna kórónuveirunnar, ekki leyfisskylda. Hún geti því farið fram án aðkomu þessara aðila. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Persónuvernd og Vísindasiðanefnd.

Í gær kom fram að leyfi þyrfti til þess að framkvæma skimanir fyrir kórónuveiru og þær rannsóknir sem Kári hugðist gera og ákvað hann því að hætta við. Enda taldi hann sig ætla að taka þátt í klínískri vinnu, ekki vísindarannsókn. Í gærkvöldi sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í færslu á Facebook að hún ætlaði að greiða fyrir því að Íslensk erfðagreining gæti hafið skimanir, enda væru hún og sóttvarnalæknir sammála um að tilboðið væri mikilvægt framlag til lýðheilsu og sóttvarna.

Fram kemur í tilkynningu frá Vísindasiðanefnd og Persónuvernd að í gær hefði borist erindi frá Íslenskri erfðagreiningu þar sem fram kom að fyrirtækið hefði boðist til að aðstoða heilbrigðiskerfið við að öðlast betri skilning á því hvernig kórónuveiran, sem veldur COVID-19-sjúkdómi, hagar sér

„Út frá efni erindisins vöknuðu spurningar um hvort hluti verkefnisins fæli í sér vísindarannsókn á heilbrigðissviði sem væri leyfisskyld hjá Vísindasiðanefnd. Var Íslensk erfðagreining upplýst um það og boðin flýtimeðferð. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir er ætlun fyrirtækisins að skima fyrir Covid19-veirunni og skoða veiruna nánar. Slík skimun og veirurannsókn er hvorki leyfisskyld hjá Vísindasiðanefnd né Persónuvernd og getur því farið fram án aðkomu þessara aðila,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is