Veiran hefur breytt kauphegðun fólks

Þessi kona nýtti sér spritt og hanska í verslunarleiðangri sínum …
Þessi kona nýtti sér spritt og hanska í verslunarleiðangri sínum og það gerðu fleiri viðskiptavinir einnig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mjög hefur verið fjallað um kórónuveiru að undanförnu og afleiðingar hennar á íslenskt samfélag. Hefur ríkislögreglustjóri meðal annars lýst yfir neyðarstigi almannavarna og landlæknir hvatt almenning til að „gæta mikillar varúðar“ og kynna sér lista yfir æskilegt birgðahald heimila í heimsfaraldri, en listann má nálgast á heimasíðu embættisins. Þá hefur landlæknir sagt fólki að „eiga meira til en vanalega“.

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segist greina meiri sölu matvöru með lengra geymsluþol. Þá segir hann einnig mikla ásókn vera í handspritt, en spritt er nú að líkindum uppselt í öllum verslunum Bónuss.

„Fólk er almennt að kaupa meira, það leynir sér ekki. Það er að birgja sig upp af frysti- og þurrvöru. Það er gríðarleg aukning í sölu á þessum vörum,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið og bætir við að kauphegðun fólks hafi því breyst talsvert eftir tilkomu kórónuveirunnar.

Nokkuð hefur borið á því að fólk klæðist hönskum í almenningi, s.s. í verslunum. Að sögn Guðmundar eru allir helstu snertifletir verslana Bónuss þrifnir mjög reglulega.

„Þetta eru staðir á borð við kerruhandföng og snertifleti á kössunum sem eru sérstaklega vel þrifnir,“ segir hann og bætir við: „Við gerum allt sem við getum og förum í einu og öllu eftir tilmælum landlæknis.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert