Andlát: Guðjón Ármann Eyjólfsson

Guðjón Ármann Eyjólfsson.
Guðjón Ármann Eyjólfsson.

Guðjón Ármann Eyjólfsson, fyrrum skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík, andaðist á Landspítalanum Fossvogi þann 16. mars síðastliðinn, 85 ára að aldri. Guðjón Ármann fæddist í Vestmannaeyjum 10. janúar 1935. Hann ólst upp í Eyjum og bjó þar síðar ásamt eiginkonu og börnum þar til í eldgosinu 1973.

Guðjón Ármann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík frá máladeild 1955 og stærðfræðideild 1956. Eftir stúdentspróf stundaði hann nám við Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi árið 1960, annar Íslendinga. Hann var sjóliðsforingi í danska flotanum og nam við Sjómælingastofnun danska sjóhersins og starfaði þar við sjómælingar. Guðjón Ármann starfaði hjá Landhelgisgæslunni 1960-61, stundaði rekstrarnám og var aðstoðarframkvæmdastjóri frystihúsa í Vestmannaeyjum 1962-63. Hann lauk kennsluréttindaprófi frá KHÍ 1976.

Guðjón Ármann helgaði starfsævi sína menntun íslenskra sjómanna. Árið 1993 var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum sjómanna. Hann var einn af stofnendum Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og var skólastjóri frá stofnun árið 1964. Hann var kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík 1975-81 og skólameistari skólans frá 1981-2003. Öryggis- og björgunarmál sjómanna voru honum ávallt hugleikin og var hann um árabil gjaldkeri Björgunarsjóðs Stýrimannaskólans í Reykjavík – Þyrlusjóðs.

Eftir Guðjón Ármann liggur yfirgripsmikið ritstarf á sviði sjómennsku, siglingasögu, siglingafræði og kennslu skipstjórnarmanna. Þar má nefna þýðingar á Alþjóðlegum siglingareglum (1972 og 1989); Stjórn og sigling skipa, siglingareglur (1982, 1989, 2006); Leiðastjórnun (2009) og Siglingafræði (2013), sem er grundvallarrit en fram að því hafði útgáfa á siglingafræði á Íslandi verið stopul.

Guðjón Ármann skrifaði mikið um sögu og mannlíf Vestmannaeyja. Haustið 1973 kom út bókin Vestmannaeyjar - byggð og eldgos, sem er mikilvæg heimild um mannlíf í Eyjum, horfna byggð og flótta íbúanna hina örlagaríku nótt, 23. janúar 1973. Hann ritaði um Vestmannaeyjar í ritið Landið þitt (1984) og var falið að skrifa Árbók Ferðafélags Íslands um Vestmannaeyjar (2009), sem tilnefnd var til verðlauna Hagþenkis og er eitt af yfirgripsmestu ritum um Vestmannaeyjar. Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja og víðar liggur einnig fjöldi greina um mannlíf og sögu Eyjanna en hann var ritstjóri Sjómannadagsblaðsins á árunum 1965-1975.

Guðjón Ármann var félagi í Akóges um árabil og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var áhugamaður um rómönsk tungumál og var virkur meðlimur í Alliance Française og sat í stjórn félagsins. Hann skrifaði m.a. um rithöfundinn Guy de Maupassant og þýddi smásögu úr frönsku eftir hann, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins.

Eftirlifandi eiginkona Guðjóns Ármanns er Anika Jóna Ragnarsdóttir frá Lokinhamradal í Arnarfirði. Þau eignuðust fjögur börn og níu barnabörn. Börn þeirra eru Ragnheiður, Ragnar, Eyjólfur og Kristín Rósa.

mbl.is