„Við erum komin af stað upp brekkuna“

Víðir segir smitrakningu ekki lokið og því gæti hlutfall óþekktra …
Víðir segir smitrakningu ekki lokið og því gæti hlutfall óþekktra smita lækkað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum komin af stað upp brekkuna í kúrfunni, það er augljóst,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, um mikla aukningu kórónuveirusmita hér á landi. 80 smit greindust síðastliðinn sólarhring og alls eru smitin orðin 330. „Við erum búin að vera að horfa á þetta trend síðustu daga og reiknilíkönin sem við höfum verið að skoða sýna að við erum í brekkunni og það er augljóslega þannig í dag.

Samkvæmt upplýsingasíðunni Covid.is er um þriðjungur smita óþekktur en Víðir segir að smitrakningu sé ekki lokið þannig að þetta hlutfall gæti lækkað töluvert. Þegar smit er skráð óþekkt er ekki vitað hvar eða af hverjum viðkomandi smitaðist. „Þessar tölur breytast þegar við höfum lokið rakningunni en það er samt eitthvað af slíkum smitum í þessu sem við getum ekki rakið, eins og hefur verið. Það er alltaf eitt og eitt.“ Hann segist ekki gera sér grein fyrir því á þessari stundu hvort hlutfall óþekktra smita sé að aukast.

Einhver hluti af þeim sem greinst hafa síðastliðinn sólarhring er nú þegar í sóttkví, en að sögn Víðis hefur hlutfall greindra í sóttkví verið rétt undir 50 prósentum fram að þessu. „Við eigum eftir að fá greiningu á þessum hóp, hvernig hann var.“

Spurður út í það hvort þessi mikla aukning smita verði til þess að aðgerðir hér á landi verði hertar eða þeim breytt, segir hann að ekki standi til að breyta heildaraðgerðunum. „Við erum að skoða einstök tilfelli og einstaka aðgerðir en í heildina er engra stórra breytinga að vænta næstu daga.“ Hann segir útgöngubann ekki hafa verið rætt, það sé því ekki í spilunum.

Þær aðferðir sem gripið hefur verið til hér á landi til að hefta útbreiðslu veirunnar eru enn taldar skila tilætluðum árangri. „Það er þessi aðferð að elta uppi smit eins hratt og hægt er og koma fólki í einangrun og þeim sem tengjast í sóttkví. Það eru alltaf fleiri og fleiri vísindamenn að verða sammála því að það er öflugasta aðferðin. Það er okkar aðalvopn.“

Hann segir samkomubannið vissulega hjálpa líka við að hægja á útbreiðslunni, en öflug smitrakning, einangrun og sóttkví séu öflugustu aðferðirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina