Hertar aðgerðir til skoðunar

Blaðamannafundur vegna kórónuveirunnar í dag. Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason, Alma …
Blaðamannafundur vegna kórónuveirunnar í dag. Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason, Alma Möller og Jo­anna Marc­in­kowska. Ljósmynd/Lögreglan

Staðfest var á upplýsingafundi í dag að til skoðunar væri að herða aðgerðir samkomubannsins, en í dag er til dæmis miðað við að þröskuldur á stærð hópa sé 100 manns. Sagði Víðir Reynisson hjá almannavörnum að allar slíkar aðgerðir yrðu þó kynntar með fyrirvara.

Á fundinum kom fram að samkvæmt spálíkani sem kynnt var fyrir tveimur dögum væri staðan nú í takt við svörtustu spá. Bæði Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sögðu að líkanið væri að þróast og að búast mætti við að það héldi áfram að þróast eftir því sem liði á faraldurinn.

Var spurt hvort herða ætti aðgerðir vegna þessa, meðal annars hvort horft væri til útgöngubanns. Sagði Víðir að núna væri verið að reyna að átta sig betur á árangrinum af smitrakningum, sóttkví og einangrun. Sagði hann að margt væri í skoðun og það þyrfti ekki endilega að grípa strax til útgöngubanns. Þannig ætti líka að horfa frekar til þess að fólk passaði sig betur og hefði ekki samneyti við fólk í sóttkví. Hins vegar kæmi líka til skoðunar að herða samkomubannið, meðal annars með að lækka þröskuldinn í samkomubanninu umtalsvert, en í dag er miðað við 100 manns.

Sagði Víðir að ef brugðið yrði á það ráð að herða samkomubannið yrði það gert með fyrirvara. Ekki yrði brugðist við með hertum aðgerðum „í dag eða á morgun“.

Á fundinum var jafnframt spurt út í aðgerðir annarra landa sem væru harðari en hér og af hverju aðgerðir hér væru ekki harðari og víðtækari. Sagði Þórólfur að unnið væri út frá hættumatslíkönum og að ákveðið hefði verið að elta hvert einasta smit og koma fólki í sóttkví eða einangrun ef við ætti. Sagði hann að samkvæmt vísindarannsóknum sem þau byggðu á væri þetta besta aðferðin. Engar þjóðir í Evrópu ynnu eftir þessu en þetta hefði gefist mjög vel til dæmis í Singapúr og Suður-Kóreu. Nefndi hann að annars staðar á Norðurlöndunum hefði ekki verið gripið til jafn harðra aðgerða í upphafi og hér á landi og vonandi væri það að hjálpa okkur nú að þurfa ekki að grípa til jafn harðra aðgerða og þar er þörf í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert