Trúnaðarmenn hjá borginni styðja samherja sína

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sextíu trúnaðarmenn Eflingar á vinnustöðum Reykjavíkurborgar hafa sent frá sér stuðnings- og samstöðuyfirlýsingu með öðrum Eflingarfélögum innan Sambands íslenskra sveitarfélaga, þ.e. í störfum fyrir Kópavog, Mosfellsbæ, Hveragerði, Ölfus og í Seltjarnarnesbæ.

Verk­fall Efl­ing­arliða nær til alls 270 starfs­manna Mos­fells­bæj­ar, Seltjarn­ar­ness, Kópa­vogs, Ölfuss og Hvera­gerðis­bæj­ar en af þeim sök­um eru grunn­skól­ar í Kópa­vogi og á Seltjarn­ar­nesi lokaðir.

Í yfirlýsingunni minna trúnaðarmennirnir á þann stuðning sem borgarstarfsmenn Eflingar fundu fyrir í baráttu sinni, sem endaði með undirritun samnings við Reykjavíkurborg 10. mars síðastliðinn. Þeir segja að félagar þeirra í verkfalli hjá sveitarfélögum eigi inni sama stuðning.

Trúnaðarmennirnir gagnrýna Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir að neita starfsfólki sveitarfélaga um sams konar kjarabætur og þær sem starfsmenn borgarinnar og ríkisins hafa fengið. „Það er mikill misskilningur ef sveitarfélögin halda að þau geti svikið láglaunafólk um kjarabætur jafnvel þótt kastljós fjölmiðla sé á öðrum atburðum. Um það verður aldrei sátt og við það verður aldrei unað,“ segir í yfirlýsingunni.

„Verði ekki samið fljótt og á sanngjörnum forsendum við félaga okkar þá erum við reiðubúin að skoða allar aðgerðir til stuðnings við félaga okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert