„Lögreglubílar alls staðar“

Í flugi Norwegian frá Alicante til Íslands í morgun. Allur …
Í flugi Norwegian frá Alicante til Íslands í morgun. Allur er varinn góður. Erla sagði spænsku áhöfnina hafa verið sérstaklega indæla en engin þjónusta hefði verið um borð, aðeins hægt að kaupa vatn á flöskum. Ljósmynd/Aðsend

„Við förum alltaf til Cabo Roig í mars og erum yfir St. Patrick‘s-daginn, leigjum íbúð af Bretum sem búa þarna. Þetta er aðeins sunnar en Torrevieja. Svo kemur oftast enskt vinafólk okkar og hittir okkur yfir St. Paddy‘s. Þetta er alveg rosaleg stemmning,“ segir Erla Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is í dag. Þau sambýlingarnir Pálmi Sigurður Jónasson, búsett á Akranesi, komu heim frá Spáni í morgun og eru nú á fyrsta degi tveggja vikna sóttkvíar.

„Svo heyrðum við í þessu [enska] vinafólki okkar á föstudeginum [13. mars] og þau eru bara að pakka og áttu flug daginn eftir. Svo um kvöldmatarleytið er það ljóst að það er bara verið að loka öllu,“ segir Erla, en þau Pálmi upplifðu það í miðju fríinu að útgöngubann tók gildi á Spáni.

Tóm vél til Íslands. „Reyndar var fleira fólk fyrir aftan …
Tóm vél til Íslands. „Reyndar var fleira fólk fyrir aftan okkur, hún var ekki alveg tóm, en það sem blasti við fyrir framan okkur var ótrúlega sérstök sjón í flugi milli Íslands og Spánar,“ sagði Erla sem nú situr í sóttkví á Akranesi með KFC og Netflix. Ljósmynd/Aðsend

„Öllu var lokað, börum, veitingastöðum og öllu, það eina sem þú gast farið í var matvörubúðin og apótekið,“ segir Erla. Þau Pálmi fóru út að borða á föstudaginn fyrir viku áður en öllu var skellt í lás. „Þetta var svona síðasta kvöldmáltíðin,“ segir Erla og hlær, frá miðnætti hafi þau hjónin verið föst í íbúðinni en gátu þó farið í sólbað á svölunum. „Við áttum engin samskipti við fólk í heila viku.

Fóru saman út með ruslið

Jú, við máttum líka fara út með ruslið, einu sinni ákváðum við að fara saman út með ruslið og fórum svo aðeins lengri leið til baka en þá fór kona í næstu íbúð strax að garga á okkur, hvað værum við að hugsa, útgöngubann ríkti í landinu,“ segir Erla. „Spánverjar taka þessu rosalega alvarlega og fara eftir öllum reglum, það voru lögreglubílar alls staðar, fyrst máttum við fara saman í búðina en svo var tekið fyrir það og aðeins einn mátti koma af hverju heimili. Allir voru sprittaðir og hleypt inn í búðina í hollum,“ segir hún. „Þetta var aðdáunarvert, Spánverjarnir stóðu saman í þessu eins og einn maður.

Það var líka svo skrýtið að upplifa þetta, við máttum ekki vera tvö á ferli og allar götur voru tómar,“ segir Erla. Í gær óttuðust þau Pálmi að komast ekki heim. „Við vorum í tómri vél með Norwegian í morgun, áhöfnin var spænsk og þau voru alveg indæl, það var engin þjónusta um borð en við máttum fara og kaupa vatn á flöskum, það var allt. Við vorum skíthrædd í gær um að komast ekkert til Íslands, hér gengu alls konar sögur á Facebook-síðum Íslendinga, allir að segja að það væri búið að loka landinu. Það er eitt að vera lokaður inni þegar ofan á bætist að þú hangir á netinu og „refresh“-ar á tveggja mínútna fresti til að athuga hvort búið sé að fella flugið þitt niður,“ segir Erla og skellihlær.

Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir. Pálmi Sigurður Jónasson …
Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir. Pálmi Sigurður Jónasson og Erla Gunnarsdóttir komin heilu og höldnu til Akraness frá Cabo Roig á Spáni úr fríi sem fór öðruvísi en ætlað var. Ljósmynd/Aðsend

„Við máttum heldur ekki fara með sama leigubíl upp á flugvöll, þetta var alveg ótrúlega sérstakt,“ segir Erla, dauðfegin að hafa komist frá Spáni til Akraness í morgun þar sem þau Pálmi sitja nú í tveggja vikna sóttkví. „Við höfum bara nóg að gera og getum farið út í göngutúr svo lengi sem við erum ekki nálægt næsta manni,“ segir Erla að skilnaði, nýkomin heim frá Spáni og í sóttkví. „Við erum með KFC og Netflix og höfum það bara huggulegt,“ segir hún að síðustu af þeim sambýlingunum.

mbl.is