Óttast að eitrað hafi verið fyrir kanínunum

Kanínur í Elliðaárdalnum.
Kanínur í Elliðaárdalnum. Ljósmynd Margrét Sif Sigurðardóttir

Margrét Sif Sigurðardóttir, sem er ein þeirra sem fer í hverri viku að gefa kanínum í Elliðaárdalnum að éta, óttast að eitrað hafi verið fyrir kanínunum í dalnum. Eitthvað svipað því sem gert hefur verið við ketti. Engar dauðar kanínur sé að finna í sjálfum skóginum, bara á og í kringum göngu- og hjólastíginn.

Margrét fer í hverri viku og gefur kanínunum að éta.
Margrét fer í hverri viku og gefur kanínunum að éta. Ljósmynd/Margrét Sif Sigurðardóttir

Að sögn Margrétar hefur hópur fólks tekið sig saman um að gefa kanínum í dalnum og er þeim gefið á hverjum degi og í sama hvaða veðri sem er. Hún segir að skýringar borgaryfirvalda um að tíðarfar og mat­ar­skort­ur séu ástæða þess að svo marg­ar hafi drepist að undanförnu ekki halda vatni.

Kanínur að gæða sér á grænmeti í Elliðaárdal.
Kanínur að gæða sér á grænmeti í Elliðaárdal. Ljósmynd/Margrét Sif Sigurðardóttir

Margrét segir að yfirleitt komi um 70 kanínur til þeirra sem fara með mat til þeirra en hún fer sjálf tvisvar í viku, á miðvikudögum og sunnudögum og gefur þeim. Eins gefi fleiri kanínunum en þessi hópur, þar á meðal íbúi í húsinu skammt frá þeim stað þar sem kanínurnar halda sig, auk þess sem fjölskyldufólk er oft að gefa kanínunum grænmeti þegar Margrét kemur inn í Elliðaárdal. 

Hræ af kanínu í Elliðaárdalnum í gær.
Hræ af kanínu í Elliðaárdalnum í gær. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Hún segir að á miðvikudag hafi hún til að mynda gefið þeim 20 kg af fóðri auk þess sem verslanir og heildsölur eru duglegar að láta þau fá ávexti og grænmeti til að gefa þegar varan er að renna út. 

„Ég gef þeim oft meira en þær ná að klára þannig að matarskortur er ekki orsökin,“ segir Margrét í samtali við mbl.is.

Þrátt fyrir slæmt tíðarfar þá eru kanínurnar duglegar að bjarga sér inn í skóg og ofan í holur sem þær gerðu í sumar og það sé sama hvernig viðrar, alltaf fer einhver og kannar með kanínurnar og gefa þeim. Kanínurnar eru orðnar hændar að þeim sem gefa þeim en koma ekki nema ef þær þekkja viðkomandi. Aftur á móti er hægt að lokka þær til sín með mat og hún segist vonast til þess að enginn hafi gert það með þessar kanínur. Það er, eitrað fyrir þeim líkt og hefur verið gert með ketti. Það sé hræðileg sjón og skelfilegt að vita til þess að einhver geti gert dýrum þetta. Mögulega hafi síðan hrafnar komist í hræin og þess vegna séu þau svona illa útlítandi, segir Margrét í samtali við mbl.is.

Kanínur í Elliðaárdal.
Kanínur í Elliðaárdal. mbl.is/Golli

Dauðar kan­ín­ur lágu eins og hráviði neðan við vest­asta húsið næst Reykja­nes­braut í gærmorgun. Af mynd­um að dæma virðast sum­ar þeirra hafa legið þar um all­nokkra hríð.

Margrét segir að hún og fleiri í hópnum hafa farið með kanínur sem hafa veikst eða meiðst til dýralæknis og eins komið þeim í hendur góðrar konu sem ræktar kanínur. 

Um umtalsverðan fjölda að ræða

Aðrir hafa rætt um að mögulega hafi önnur dýr, svo sem kettir, hundar eða minkur, en Margrét segir að kanínurnar séu afar fljótar að forða sér og viðkomandi dýr hafi náð einni eða tveimur kanínum. 

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir að verið sé að rannsaka málið og hafa hræ verið send í rannsókn til að athuga hvort þetta sé af völdum eitrunar. Það hafa einnig fundist fleiri hræ í dag, líka í skóginum þarna í kring. Að sögn Bjarna hafa fundist fleiri hræ í dag og er um talsverðan fjölda að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert