Fimm fluttir á sjúkrahús

Álagið er gríðarlegt þessa dagana á starfsfólk slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Álagið er gríðarlegt þessa dagana á starfsfólk slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Af Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins

Fimm voru fluttir á sjúkrahús í morgun eftir umferðaróhöpp á Reykjanesbraut á áttunda tímanum í morgun. Gríðarlegt álag er á sjúkraflutningamönnum vegna kórónuveirunnar. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru fjórir fluttir á bráðamóttöku Landspítalans eftir fjögurra bíla árekstur á Reykjanesbraut, skammt frá álverinu í Straumsvík, klukkan 7:36.

Nokkrum mínútum fyrr hafði bíll oltið á Reykjanesbraut í Garðabæ og var einn fluttur á bráðamóttökuna. Lögreglan annaðist flutninginn en álagið á slökkviliðið er gríðarlegt þessa dagana vegna kórónuveirunnar. 

Eldur kviknaði í bifreið á miðri Miklubraut, skammt austan við Grensásveg. Tveir voru í bílnum en komust þeir út úr bílnum áður en bifreiðin varð alelda. Engin slys urðu á fólki.

Tveggja bíla árekstur var síðan á Reykjanesbraut við Brunnhól klukkan 9:35 en ekki þurfti að flytja neinn á bráðamóttöku Landspítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert