Hljóp einn í FH Bose-hlaupinu

Óskar Páll að hlaupinu loknu.
Óskar Páll að hlaupinu loknu. Ljósmynd/Aðsend

Þriðja og síðasta FH Bose-hlaup vetrarins átti að fara fram í Hafnarfirði í kvöld. Eins og svo mörgu öðru var hlaupinu frestað sökum faraldurs kórónuveirunnar.

Óskar Páll Elfarsson, vörustjóri Bose á Íslandi, lét það þó ekki á sig fá heldur skellti sér í hlaupagallann og hljóp hlaupið einsamall. Hann segist hvetja fólk til að fara út að hlaupa á þessum sérstöku tímum.

„Þetta var hressandi og skemmtilegt. Hlaupaleiðin er fimm kílómetrar og afar falleg leið í hjarta Hafnarfjarðar sem hentar flestum. Með góð heyrnartól á höfðinu er hægt að rölta leiðina með góða hljóðbók, skokka með notalegri tónlist eða taka á öllu sínu og hlaupa eins og fætur toga með allt í botni,“ segir Óskar Páll sem tók vel á því í kvöld og hljóp leiðina á 21 mínútu og 58 sekúndum.

Góð þátttaka hefur verið í FH Bose-hlaupinu undanfarin ár og í kringum 500 manns hafa jafnan hlaupið í alls konar veðrum. Ný tímasetning hefur verið ákveðin fyrir hlaupið og mun það fara fram 13. maí að öllu óbreyttu.

mbl.is