„Óttumst hið versta en vonum það besta“

Engar tekjur koma inn hjá Bláa Lóninu enda lokað út …
Engar tekjur koma inn hjá Bláa Lóninu enda lokað út apríl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mörg fyrirtæki eru nú að huga að aðgerðum vegna áhrifa kórónuveirunnar. Vinnumálastofnun hafði í gær fengið rúmlega 11 þúsund umsóknir vegna skerts starfshlutfalls starfsmanna og í gær og undanfarna daga hafa nokkur fyrirtæki sagt upp fólki.

„Við búumst við hinu versta en vonum það besta. Ómögulegt er að segja hversu margir telja sig geta haldið þetta út,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, þegar hann er spurður hvort hann telji von á holskeflu uppsagna fyrir mánaðamót.

Bláa Lónið tilkynnti í gær um uppsagnir 164 starfsmanna og að 400 af þeim 600 sem eftir eru yrði boðið að minnka starfshlutfall samkvæmt úrræðum Vinnumálastofnunar. Bláa Lónið lokaði 23. mars vegna samkomubanns heilbrigðisyfirvalda og stendur lokunin út apríl. Í bréfi til starfsmanna sagði Grímur Sæmundsen, forstjóri fyrirtækisins, að aðgerðirnar væru liður í því að vernda þau störf sem eftir stæðu hjá félaginu og tryggja rekstur Bláa Lónsins til framtíðar.

Fyrirtækin Skaginn 3x og Þorgeir & Ellert á Akranesi sögðu upp 43 starfsmönnum í fyrradag. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Kanna frekari úrræði

Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í  dag telur Ragnar Þór Ingólfsson að mjög mörg fyrirtæki séu í slæmri stöðu og hafi verið að bíða eftir útfærslu á aðgerðum ríkisins.

Segir hann að mikið álag sé á skrifstofu VR og væntanlega einnig annarra stéttarfélaga. Starfsfólkið sé að svara fyrirspurnum, fræða fólk um réttindi þess og skyldur og möguleika á úrræðum. Fólkið standi ýmist frammi fyrir uppsögnum eða hafi verið boðið hlutastarfaúrræði.

Ragnar segir jafnframt að fulltrúar verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda séu á stöðugum fundum með fulltrúum stjórnvalda við að útfæra þau úrræði sem samþykkt hafi verið og kanna möguleika á frekari úrræðum vegna breyttra forsendna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert