Allt að 10°C hiti á morgun en frost í næstu viku

Gera má ráð fyrir léttskýjuðu veðri fyrripartinn í dag og …
Gera má ráð fyrir léttskýjuðu veðri fyrripartinn í dag og nokkuð hlýju veðri. Allt að 10°C hiti verður á morgun á Suðausturlandi. Eftir helgi kólnar hins vegar í veðri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðáttumikil hæð sem er fyrir sunnan land mun stjórna veðrinu hér á landi næstu daga, en hæðin er 1051 millibör. Verða suðvestan- og vestanáttir viðvarandi og munu þær bera með sér talsvert hlýtt loft núna um helgina.

Í dag er spáð suðvestan 8-15 m/s og léttskýjað að mestu á landinu, en þykknar upp með súld seinnipartinn á vestanverðu landinu. Á morgun mun síðan bæta í vindinn, en áfram verður bjart austantil á landinu en dálítil rigning eða súld á vesturhelmingi landsins. Hiti verður á bilinu 0°C til 6°C síðdegis í dag en búast má við hita allt að 10°C á morgun, hlýjast á Suðausturlandi.

Áfram verða mildar vestanáttir á landinu eftir helgi en síðan er útlit fyrir að apríl taki við með norðanáttum og kólnandi veðri.

Á höfuðborgarsvæðinu verður suðvestan 5-10 m/s og léttskýjað í dag, en rigning eða súld í kvöld. 3-6°C hiti í kvöld og hlýnar á morgun samhliða því að búast má við lítilsháttar rigningu eða súld.

Á morgun má búast við allt að 13-20 m/s austanlands og hvassari vindum við fjöll. Hægari vindur á Suður- og Vesturlandi.

Á þriðjudag fer að kólna og er spáð frostmarki norðantil, en þó áfram frostlausu á suðurhluta landsins. Á miðvikudag snýst svo í stífa vestlæga átt, dálitla skúri með suðurströndinni en él norðantil og hita í kringum frostmark. Kólnandi veður og snjókoma á norðanverðu landinu þegar líður á daginn, en él syðra.

Á fimmtudag og föstudag má búast við norðanátt með snjókomu norðantil á landinu og talsverðu frosti víða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert