66 ný smit greind frá því í gær

Fjöldi staðfestra smita af völdum kórónuveirunnar er nú 1.086 samkvæmt tölum sem birtar voru á covid.is í dag. Hefur smituðum fjölgað um 66 í gær, en tölurnar sína fjölda smita eftir gærdaginn.

Samkvæmt tölum á síðunni voru 54 smit greint í gær á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og tvö hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þá fjölgaði smitum sem skráð eru á fyrri daga um 10.

Samtals hafa verið tekin 16.484 sýni, en í gær voru tekin 510 sýni á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og 490 hjá Íslenskri erfðagreiningu.

25 manns hafa verið lagðir inn á spítala og samkvæmt vefsíðunni eru 9 á gjörgæslu. Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir covid-göngudeildar Landspítalans, staðfesti hins vegar við Rúv fyrir hádegi að tilvikin væru orðin 10 talsins.

Þá eru 945 einstaklingar í einangrun, 9.236 í sóttkví og 5.427 hafa lokið sóttkví. Í heild hefur 139 batnað.

Komin eru smit í alla landshluta, en samkvæmt síðunni eru nú fjögur greind smit á Vestfjörðum og fimm á Austurlandi. Sem fyrr eru langflest smit á höfuðborgarsvæðinu, eða 822 og 4.623 þar í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert