Hátt í tug blaðamanna sagt upp á DV

Einhverjir þeirra sem missa vinnuna í dag hafa starfað á …
Einhverjir þeirra sem missa vinnuna í dag hafa starfað á DV í fjölda ára. mbl.is/Arnar

Hátt í tugur blaðamanna á DV hefur fengið uppsagnarbréf í dag, ásamt umbrotsmanneskju, prófarkalesara, nokkrum í auglýsingadeild og öllum starfsmönnum áskriftardeildar, samkvæmt heimildum mbl.is. Einhverjir hafa starfað á DV í fjölda ára og fylgt fjölmiðlinum í gegnum nokkur ritstjóraskipti.

Samkeppniseftirlitið gaf í síðustu viku grænt ljós á kaup Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins og Hringbrautar, á Frjálsri fjölmiðlun sem gefur út DV og DV.is. Eru uppsagnirnar einn þáttur í samrunanum.

Einhverjum starfsmönnum býðst að koma til starfa fyrir Torg, en samkvæmt heimildum mbl.is er það fámennur hópur.

Lilja Katrín Gunnarsdóttir, ritstjóri DV, afþakkaði boð um starf hjá Torgi en í samtali við mbl.is segist hún ganga sátt frá borði.

„Mér bauðst að halda áfram sem ritstjóri DV eftir samrunann við Torg en afþakkaði það boð. Ég er mjög stolt af því sem ég og þessi litla en samheldna ritstjórn DV, sem og eiginmaður minn, Guðmundur Ragnar Einarsson, sem gegndi stöðu markaðs- og þróunarstjóra DV, hefur áorkað síðustu mánuði og ár og geng afar sátt frá borði,“ segir Lilja Katrín.

Samkvæmt heimildum mbl.is verður nýr ritstjóri DV kynntur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert