Næstu skref eftir páska tilkynnt fljótlega

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir á blaðamannafundinum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir á blaðamannafundinum. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segist vera bjartsýnn með stöðu mála hérlendis miðað við þær tölur sem hann hefur séð varðandi kórónuveiruna. Hann segir að vel hafi tekist að beygja kúrfuna niður og að veiran sé ekki í eins miklum vexti og hjá öðrum þjóðum. Þar megi þakka því að gripið var strax til frekar harðra aðgerða.

Hann segir mestu áskorunina felast í því hvenær skuli aflétta samkomubanninu og þeim hömlum sem hafa verið settar á í samfélaginu þannig að komið verði í veg fyrir að faraldurinn komi aftur. Það verði verkefni næstu vikna og mánaða. „Við getum lent í litlum eða stórum faraldri innanlands ef við öll pössum okkur ekki,“ sagði hann á blaðamannafundi.

Verið er að skoða næstu skref. Núverandi aðgerðir standa yfir fram yfir páska. Tilkynnt verður í lok þessarar viku eða í byrjun næstu hvað tekur við eftir það. Sagði hann það í sífelldri endurskoðun hvernig á að milda eða herða aðgerðir hér á landi til að bregðast við útbreiðslu veirunnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert