Sjö eru í öndunarvél

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Alls liggja þrjátíu manns á Landspítalanum sem hafa greinst með kórónuveiruna. Tíu eru á gjörgæslu og þar af eru sjö í öndunarvél. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á blaðamannafundi.

Faraldurinn er í hægum línulegum vexti og ekki í veldisvexti.

Fjöldi tilfella er að fylgja bestu spám. Fjöldi þeirra sem liggja á gjörgæslu fylgir aftur á móti verstu spám.

Alls hafa 160 einstaklingar jafnað sig á veirunni. 

Búist er við því að í byrjun apríl hafi 1.500 til 1.600 greinst með veiruna hérlendis. Þórólfur sagðist reikna með því að toppnum verði náð í faraldrinum fyrri hluta apríl og sagði mikilvægt að halda áfram þeim aðgerðum sem eru í gangi.

Konur eru þriðjungur þeirra sem liggja á Landspítalanum með kórónuveiruna. Auk þeirra 30 sem liggja á spítalanum með veiruna liggja sex inni vegna gruns um að vera með veiruna, að sögn forstjóra Landspítalans.

Á göngudeild Covid-19 á Landspítalanum eru 936 í eftirliti, þar af 72 börn. 157 manns hefur batnað. Alls eru 38 starfsmenn Landspítalans í einangrun. Á þriðja hundrað starfsmanna eru í sóttkví.

Sex liggja á Landakoti með Covid-19. Ekki er vitað til þess að sjúklingur hafi sýkt starfsmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert