Hjón látin af völdum veirunnar

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Hjörtur

Annar þeirra sem létust á síðasta sólarhring á Landspítalanum af völdum COVID-19 er eiginmaður konu sem lést af völdum sjúkdómsins í síðustu viku. Maðurinn var 75 ára gamall. 

Stundin greinir frá þessu. 

Vitnað er í son þeirra sem minnist foreldra sinna á þennan hátt: „Ég er eiginlega búinn með orðin, ég vona bara að þau séu á góðum stað og líði vel saman. Ég elska ykkur bæði.“ Hann segir föður sinn ekki hafa glímt við nein veikindi áður en hann smitaðist af kórónuveirunni. Honum hafi versnað hratt og legið mikið veikur á Landspítalanum. Móðir hans lá inni á spítalanum í viku áður en hún lést.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, vildi á blaðamannafundi í dag hvorki greina frá kyni né aldri þeirra tveggja sem létust. Upplýsingafulltrúi Landspítalans gat ekki veitt mbl.is upplýsingar um hvenær umræddir sjúklingar greindust með veiruna, hvenær þeir voru lagðir inn á spítalann eða hvort þeir hefðu verið í öndunarvélum.

Andlát af völdum kórónuveirunnar eru því orðin fjögur hérlendis. Fyrst lést ástralskur maður á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík, líklega af völdum kórónuveirusýkingar. Þá lést fyrrnefnda konan, sem var á sjötugsaldri, á smitsjúkdómadeild Landspítalans í síðustu viku. Síðan létust tveir á Landspítalanum á síðasta sólarhring.

mbl.is

Kórónuveiran

30. maí 2020 kl. 14:00
-1802
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir