Ellefu aðildarfélög BHM sömdu við ríkið

Geislafræðingar eru á meðal þeirra sem hafa skrifað undir.
Geislafræðingar eru á meðal þeirra sem hafa skrifað undir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar ellefu aðildarfélaga BHM gengu í dag frá undirritun nýs kjarasamnings við ríkið. Efni samningsins verður kynnt félagsmönnum á næstu dögum.

Í kjölfarið verður efnt til atkvæðagreiðslu um samninginn meðal félagsmanna hvers félags og er niðurstöðu að vænta eigi síðar en 17. apríl næstkomandi. Gildistími nýs samnings er frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Samninganefndir ellefu aðildarfélaga BHM stóðu frammi fyrir því að taka afstöðu til tilboðs Samninganefndar ríkisins. Í ljósi fordæmalausrar stöðu í samfélaginu var ákveðið að bera samninginn undir félagsmenn í atkvæðagreiðslu, segir enn fremur. 


BHM- félögin ellefu eru:

Dýralæknafélag Íslands (DÍ)

Félag geislafræðinga (FG)

Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH)

Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN)

Félag lífeindafræðinga (FL)

Félagsráðgjafafélag Íslands (FÍ)

Iðjuþjálfafélag Íslands (IÞÍ)

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH)

Ljósmæðrafélag Íslands (LMFÍ)

Sálfræðingafélag Íslands (SÍ)

Þroskaþjálfafélag Íslands (ÞÍ)

____

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert