Vaktaálagsauki hjúkrunarfræðinga framlengdur

Vaktaálagsgreiðslur áttu að falla niður núna um mánaðamótin.
Vaktaálagsgreiðslur áttu að falla niður núna um mánaðamótin. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Vaktaálagsauki sem hjúkrunarfræðingar á Landspítala hafa fengið vegna tilraunaverkefnis spítalans verður framlengdur til næstu mánaða og nauðsynlegar fjárveitingar tryggðar. Þetta kemur fram í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa sent forstjóra Landspítala vegna málsins, að fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Árið 2017 setti Landspítalinn af stað tilraunaverkefni, svokallaðan vaktaálagsauka. Tilgangur
vaktaálagsaukans var að auka hvata hjúkrunarfræðinga til þess að sinna vinnuskyldu sinni utan dagvinnumarka. Verkefnið hófst í apríl 2017 og var upphaflega ætlað að standa í sex mánuði. Landspítali hefur framlengt verkefnið þrisvar sinnum og átti því að ljúka um síðastliðin áramót samkvæmt ákvörðun spítalans.

Lækkuðu laun margra hjúkrunarfræðinga á spítalanum því um tugi þúsunda, en Sóley Halldórsdóttir hjúkrunarfræðingur sagðist í færslu, sem hún birti á Facebook um mánaðamótin, vona að launaseðillinn hennar væri aprílgabb.

Í tilkynningunni segir að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru uppi sé mikilvægt að Landspítali framlengi greiðslur samkvæmt verkefninu næstu mánuði eða allt að 1. október 2020 eftir nánara mati spítalans.

 „Við ætlum að gera grundvallarbreytingar í þeim samningum sem eru í farvatninu á vaktavinnufyrirkomulaginu. Vonandi hjálpar framlenging á greiðslum fyrir álag vegna vakta til að ljúka kjaraviðræðum samninganefndar ríkisins og hjúkrunarfræðinga farsællega. Ég vil trúa því,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Þegar horft er til þeirra alvarlegu aðstæðna sem nú eru uppi í heilbrigðiskerfinu vegna Covid-19, þar sem álag á heilbrigðisstéttir er meira en nokkru sinni, tel ég augljóst að ráðstafanir sem skerða kjör hjúkrunarfræðinga eru fráleitar,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert