Um 70 manns á leið heim frá Alicante

Tæplega 70 manns hafa bókað sér sæti í vél Icelandair frá Alicante næstkomandi miðvikudag og eru enn um 120 sæti laus í vélinni. Um er að ræða síðasta flugið frá Alicante um fyrirsjáanlega framtíð, að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair.

Allir farþegarnir sem koma með vélinni hingað til lands eru Íslendingar en vélin flýgur svo til tóm til Alicante þó hugsanlega muni örfáir spænskir ferðamenn fara með vélinni út. 

Áfangastaðir helst Boston og London

Icelandair býður upp á flug til Danmerkur um næstu helgi þrátt fyrir að miklar ferðatakmarkanir séu þar í gildi. Spurð hvers vegna það sé segir Ásdís:

„Hingað til höfum við verið að aflýsa tvo til þrjá sólarhringa fram í tímann en við erum að komast á það stig að geta aflýst aðeins lengra fram í tímann, viku um það bil.“

Enn er hægt að bóka sæti í vélunum en Ásdís segir ekki mikið um bókanir. Á heimasíðu Icelandair er að finna upplýsingar um það hvað sé á áætlun og hverju sé aflýst.

„Eins og staðan er núna höfum við fyrst og fremst verið að fljúga til London og Boston. Svo er flug á áætlun til Stokkhólms næsta þriðjudag,“ segir Ásdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert