Þrjú smit á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík

Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.
Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.

Þrjú COVID-19-smit hafa greinst á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Þetta var staðfest í morgun. Áfram eru aðrir átta íbúar í sóttkví og án einkenna, samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Heimsóknabann hefur gilt á heimilinu um hríð, gripið hefur verið til nauðsynlegra og hertra sóttvarnaaðgerða og öllum leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda fylgt.

„Aðgerðir og áherslur okkar og heilbrigðiskerfisins í heild hafa allar miðað að því að takmarka smit á hjúkrunarheimilum. Þessi þrjú smit eru því mikið áfall,“ segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Mikil samheldni er í hópi starfsmanna, sem að miklum hluta eru í sóttkví. Samfélagið er allt saman í þessu verkefni. Af sterkum viðbrögðum við fjársöfnun hópsins Stöndum saman Vestfirðir er ljóst að velvilji almennings er mikill. 

Slæmt veður er á heiðum en vegum hefur verið haldið opnum fyrir bíla sem flutt hafa sýni af svæðinu. Þá hefur Vegagerðin aðstoðað fólk úr bakvarðasveit við að komast á milli landshluta. Björgunarsveitir hafa verið til taks og meðal annars sinnt flutningi á sýnum.

Samtals sjö smit hafa verið staðfest síðasta sólarhringinn á Ísafirði og í Bolungarvík. Um fjórðungur Bolvíkinga er í sóttkví.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða biðlar sérstaklega til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sem komið geta með skömmum fyrirvara, að skrá sig í bakvarðasveit stofnunarinnar á netfanginu hvest@hvest.is. Starfsfólk þarf til starfa á hjúkrunarheimilum og bráðadeild á norðanverðum Vestfjörðum.

Lögreglan á Vestfjörðum ítrekar að enn eru í gildi hertar reglur almannavarna á Vestfjörðum, sem settar voru í samráði við sóttvarnalækni miðvikudaginn 1. apríl sl. Þær gilda um Bolungarvík, Hnífsdal og Ísafjörð. Það er full ástæða til að halda þeim aðgerðum meðan heilbrigðisyfirvöld eru að greina smit í þessum byggðarlögum og smitrakning stendur yfir.

Brýnt er fyrir öllum að hafa í heiðri samkomubannið sem takmarkast við fimm einstaklinga, tveggja metra samskiptafjarlægð og annað sem á við. Enn er fólk hvatt til þess að halda sig heima við að mestu leyti en góðir göngutúrar eða önnur slík líkamsrækt er nauðsynleg.

Þá er mikilvægt að allir þeir sem finna fyrir flensueinkennum hafi samband í síma 1700 eða síma viðeigandi heilbrigðisstofnunar. Læknir eða hjúkrunarfræðingur mun þá meta hvort ástæða sé til sýnatöku.

Á Vestfjörðum eru í dag alls 345 einstaklingar í sóttkví. 219 manns hafa lokið sóttkví. Smituðum hefur fjölgað um fimm síðan í gær. Svipaður fjöldi smitaðra er í Bolungarvík og Ísafjarðarbæ, eða 18 í Ísafjarðarbæ og 15 í Bolungarvík. Einn einstaklingur er smitaður í Súðavíkurhreppi, í Strandasýslu og Reykhólasveit. Enginn er greindur smitaður í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.

Ekki liggur fyrir nákvæmur fjöldi sýna í bið en í dag var tekið 21 sýni á norðanverðum Vestfjörðum sem er á leið til Reykjavíkur með aðstoð varðskipsins Þórs, sem siglir með sýnin inn í Ísafjarðardjúp, til móts við björgunarsveitarmenn frá Hólmavík og aka þeim á móti aðila sem sér um að koma þeim til veirufræðideildar Landspítala.

mbl.is